Hörður Hákon Jónsson er einn fárra á Íslandi í skaðaminnkandi skömmtunarmeðferð vegna morfínfíknar. Hann vill að meðferðin verði gerð fleirum aðgengileg. Hann segir fordóma of mikla og að veikt fólk sé gert að glæpamönnum. Hákon eins og hann er oftast kallaður opnar sig í von um skilning og fleiri úrræði.

Hákon hefur farið í alls um 40 meðferðir á Vogi auk þess sem hann hefur farið í framhaldsmeðferðir á Staðarfelli, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvík. Hann hefur prófað viðhaldsmeðferðir á Vogi með Suboxone-lyfinu en segir að ekkert þessara úrræða myndu hjálpað honum dag.

„Ég hef náð góðum tíma edrú inn á milli. Ég hef líka strögglað mikið edrú. Ég hef prófað þetta allt, og Suboxone er ekki fyrir alla. Ég er auðvitað ekki læknir en það segir mér svolítið, að morfínið sem ég er á hefur minni fráhvörf en suboxone fráhvörfin og eru ekki varanleg.“

Hann segir að eitt sinn hafi hann þurft að leggjast inn tíu sinnum á Vog eitt árið, því þá hafi hann verið í Suboxone viðhaldsmeðferð hjá SÁÁ.

„Ég var alltaf að missa Suboxone því ég náði ekki að fylgja reglunum þeirra í að vera 100 prósent edrú. Manni leið eins og maður væri bara kominn með annan dópsala,“ segir Hákon og að skilyrðin hjá SÁÁ séu mjög ströng til að komast í viðhaldsmeðferð.