Um fjörutíu manns þáðu áfallahjálp eftir að slys varð á Úlfarsfelli í Mosfellsbæ um hádegisbil í dag, þetta staðfestir Oddur Freyr Þorsteinsson, kynningar- og fjölmiðlafulltrúi Rauða krossins á Íslandi í samtali við Fréttablaðið. RÚV greindi fyrst frá.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út um tólf í dag vegna slasaðs hjólreiðamanns sem keppti í bikarmóti sem fór fram á vegum Hjólreiðasambands Íslands fyrr í dag.
Oddur Freyr segir að áfallateymi Rauða krossins hafi verið kallað út og fólki hafi verið boðið að sækja áfallahjálp til Rauða krossins á skrifstofu þeirra á Efstaleiti og að um fjörutíu manns hafi tekið boðinu.
Þegar Fréttablaðið ræddi við Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, fyrr í dag sagði hann alvarleika áverka mannsins ekki ljósa að svo stöddu en að þeir hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið talið öruggt að flytja hann landleiðina á sjúkrahús.
Ásgeir segir þyrluna hafa verið fljóta að bregðast við útkallinu, en öll áhöfn gæslunnar var stödd á flugvellinum þegar útkallið barst.