Rétt tæplega fjórðungur afplánunarfanga afplánaði dóma utan fangelsa í fyrra en hlutfall þeirra hefur hækkað jafnt og þétt á undanförnum árum vegna aukinna áherslna á afplánunarúrræði utan fangelsa eins og rafrænt eftirlit og samfélagsþjónustu. Þetta sýna tölur sem Fréttablaðið aflaði hjá Fangelsismálastofnun.

„Að okkar mati er mikilvægt að loka einstaklinga eins stutt og mögulegt er inni í lokuðum fangelsum og að fangar fari þaðan í opin fangelsi, þá á áfangaheimili og loks ljúki þeir afplánun heima hjá sér með ökklaband,“ segir Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar. Hann segir það auka líkur á að einstaklingar aðlagist samfélaginu hægt en örugglega og geti frekar fótað sig eftir að afplánun lýkur.

Þrátt fyrir þessar breytingar hefur lítið dregið úr fjölda þeirra sem bíða afplánunar og raunar hefur fjölgað jafnt og þétt á boðunarlista Fangelsismálastofnunar þannig að listinn nánast tvöfaldaðist á árunum 2010 til 2017 og fór úr 300 í 570 manns. Nokkuð fækkaði á boðunarlistanum árið 2018 í fyrsta skipti í áratug en í lok árs voru 536 á listanum.

Aðspurður segir Páll að þótt rýmum í fangelsum hafi fjölgað er nýtt fangelsi var tekið í notkun árið 2016, segi það ekki alla söguna. „Í Hegningarhúsinu og Kópavogsfangelsinu voru alls 24 rými en þau eru 56 í nýju fangelsi á Hólmsheiði. Það er þó háð fjárveitingum hve mörg rými Fangelsismálastofnun getur nýtt á hverjum tíma í fangelsum landsins. Fangelsið á Hólmsheiði á að komast í fulla notkun á þessu ári.“