Fjórtán ný tilfelli kórónaveirusmits greindust hér á landi í gær og eru því nú 72 í einangrun vegna COVID-19.

Þrettán tilfelli greindust innanlands, þar af tólf hjá veirufræðideild Landspítala og eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu, og eitt við landamæraskimun en beðið er mótefnamælingar úr því sýni.

Sá sem greindist við landamæraskimun og greint var frá í gær reyndist vera með virkt smit en enn er beðið mótefnamælingar úr einu öðru sýni.

Einstaklingum í sóttkví fjölgaði um 115 og eru því nú 569 í sóttkví. Einn er á legudeild Landspítala.

Rúmlega þrjú þúsund sýni voru tekin í gær, 271 hjá veirufræðideild, 555 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 2362 við landamæraskimun.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti Landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 14:00 í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála þegar kemur að faraldrinum hér á landi. Á fundinum verða Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma D. Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Fréttin hefur verið uppfærð.