Að minnsta kosti fimmtán eru látnir og fleiri eru særðir eftir skotárás í grunnskóla í borginni Uvalde í Texas. Frá þessu greinir Greg Abbott, ríkisstjóri Texas-ríkis, en hann segir fjórtán nemendur og einn kennara látin.

Nú hefur verið greint frá því að árásaraðurinn sé látinn og hafi verið einn að verki. Hann á að hafa verið átján ára gamall.

Umrædd árás átti sér stað um hádegisleytið á staðartíma. Samkvæmt fyrstu fregnum voru tveir látnir, en sú tala hefur verið hækkuð.

Tveir spítalar í borginni hlúa nú að særðum, en þar á meðal eru nemendur skólans. Talsmaður annars spítalans sagði starfsfólk hans nú hlúa að börnum.

Uppfært - Fyrst kom fram að árásarmaðurinn væri í haldi lögreglu

Búist er við því að Joe Biden bandaríkjaforseti muni tjá sig um málið í kvöld.