Sjálfstætt starfandi listamönnum og menningartengdum fyrirtækjum verður gert kleift að sækja um rekstrarstyrki hjá hinu opinbera til að mæta tekjusamdrætti vegna heimsfaraldursins.

Er gert ráð fyrir því að rúmum fjórtán milljörðum króna verði varið til almenns tekjufallsstuðnings.

Forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu í dag, ásamt fulltrúum Bandalags háskólamanna og Bandalags íslenskra listamanna, tíu stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir listir og menningu á tímum COVID-19.

Aðgerðirnar voru kynntar á blaðamannafundi í Hörpu í dag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Efna til vitundarvakningar

Sem hluta af þeim aðgerðum hyggjast stjórnvöld hækka starfslaun og styrki til listamanna tímabundið fyrir árið 2021 og framlengja tímamörk verkefnastyrkja til menningarmála. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þá mun ríkisstjórnin standa að stofnun Sviðslistamiðstöðvar og Tónlistarmiðstöðvar og efna til vitundarvakningar um mikilvægi lista og menningar á Íslandi.

Aðgerðirnar verða kynntar nánar á næstu vikum en þær eru sagðar vera fjölþættar og miða að því að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja, að sögn stjórnvalda.

Meðal skilyrða fyrir veitingu tekjufallsstyrks eru að einyrkjar eða litlir rekstraraðilar hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020 og að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.

Brýnt að bregðast við erfiðri stöðu

„COVID-kreppan hefur bitnað illa á listafólki í öllum greinum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu vonandi koma til móts við þarfir þessa hóps sem hefur orðið fyrir miklu tekjufalli og býr við mikla óvissu á vinnumarkaði,“ er haft eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni Bandalags háskólamanna á vef Stjórnarráðsins.

Þá er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að menningarlífið hafi orðið fyrir miklu höggi vegna heimsfaraldursins og að stjórnvöld telji brýnt að bregðast við með aðgerðum.

Að sögn Erlings Jóhannessonar, forseta Bandalags íslenskra listamanna, hafa hefðbundin úrræði sem grípa eiga fólk í erfðri stöðu á vinnumarkaði ekki nýst listamönnum sem skildi.

„Því eru þetta kærkomnar aðgerðir sem bæta tap og brúa tíma sem við öll vonum að verði sem stystur,“ er haft eftir Erlingi.

Fréttin hefur verið uppfærð.