Enn er leitað að eftir­lifandi ein­stak­lingum eftir að flug­vél með 22 manns um borð hrapaði í Hima­læja­fjöllum í Nepal. Tuttugu ein­staklingar hafa fundist og allir þeirra látnir. Yfir­völd segja ó­lík­legt að ein­hver finnist lifandi. Reuters greina frá þessu.

Flug­vélin, sem var á vegum flug­fé­lagsins Tara Air, hrapaði í lé­legum veður­skil­yrðum en þéttskýjað var þegar at­vikið átti sér stað. Nepalski herinn fann vélina fyrr í dag en hún var smíðuð árið 1979.

„Það eru litlar líkur á að við finnum ein­hvern lifandi,“ sagði tals­maður flug­mála­stjórnar Nepal í samtali við Reuters. Hann sagði leitina að hinum ein­stak­lingunum halda á­fram.

Flug­vélin átti að fljúga tuttugu mínútna leið á sunnu­dags­morguninn á milli ferða­manna­bæjanna Pokhara og Jom­som. Um borð voru fjórir Ind­verjar, tveir Þjóð­verjar og sex­tán Nepalar.

Fimm mínútum fyrir lendingu missti flug­um­ferðar­stjórn sam­band við vélina en hún hrapaði við Dhaulagiri-fjall, í 8.200 metra hæð. Fjallið er það sjöunda hæsta í heiminum.

Í Nepal eru átta af fjór­tán hæstu fjöllum heims, þar á meðal er E­verest, en mikið er um flug­slys þar. Veðr­áttan í Nepal getur ger­breyst fljótt og flug­vellir eru stað­settir í fjöllum þar sem að­koman er ekki góð.