Lyfja­stofnun hefur nú fengið fjór­tán til­kynningar um dauðs­föll í kjöl­far bólu­setningar gegn CO­VID-19 en tvö dauðs­föll hafa bæst við frá 8. mars síðast­liðnum. Þetta stað­festir Rúna Hauks­dóttir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofnunar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að sögn Rúnu er annars vegar um að ræða gamalt til­felli, þar sem ein­stak­lingur var bólu­settur í lok desember og lést í janúar, og hins vegar til­felli núna í mars. Báðir ein­staklingar höfðu fengið bólu­efni Pfizer og BioN­Tech og voru þeir á ní­ræðis­aldri.

Allar til­kynningar um dauðs­föll tengjast bólu­efni Pfizer en ekki er talið að um or­saka­sam­band sé að ræða.

Ekki fleiri tilkynningar um blóðtappa

Greint var frá því í síðustu viku að af þeim al­var­legu til­kynningum sem Lyfja­stofnun hafði fengið voru þrjú vegna mögu­legra auka­verkanna með blóð­tappa. Þeim til­kynningum hefur ekki fjölgað frá því fyrir helgi að sögn Rúnu, en ein til­kynning um blóð­tappa hefur borist fyrir hvert bólu­efni sem er nú í notkun.

Alls hafa nú 512 til­kynningar vegna gruns um auka­verkun í kjöl­far bólu­setningar en flestar til­kynningar hafa borist vegna bólu­efnis Pfizer, eða 187. Al­var­legar auka­verkanir eru nú 32, þar af 22 fyrir bólu­efni Pfizer, fimm fyrir Moderna, og fimm fyrir AstraZene­ca.

Hlutfallslega flestar tilkynningar vegna bóluefnis Moderna

Hlut­falls­lega flestar til­kynningar eru vegna bólu­efnis Moderna en 1250 manns hafa verið full­bólu­settir með því bólu­efni og er bólu­setning hafin hjá rúm­lega 1400 manns til við­bótar. Alls hafa 142 til­kynningar borist fyrir bólu­efni Moderna.

„Hver til­kynning vegur raun­veru­lega svo þungt hjá okkur því þetta er svo lítið þýði, það eru 22 þúsund bólu­settir með Pfizer þannig að það er að­eins meiri kraftur í því þýði, og hjá Astrazene­ca hafa níu þúsund verið bólu­settir,“ segir Rúna að­spurð um hvort um sé að ræða eðli­legt hlut­fall. Hún segir ekkert vera ó­vana­legt í til­kynningum um auka­verkanir.

Funda um AstraZeneca bóluefnið

Næst flestar til­kynningar eru síðan vegna bólu­efnis AstraZene­ca, eða 180, en notkun bólu­efnisins hér á landi hefur verið stöðvuð tíma­bundið á meðan farið er yfir gögn um mögu­lega blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar.

„Lyfja­gátar­nefnd Lyfja­stofnunar Evrópu var á fundi í dag og funda aftur á fimmtu­daginn, þá var blaða­manna­fundur í dag þar sem fram kom að það sé ekkert sem bendir til þess að það séu tengsl þarna á milli, og að á­vinningurinn sé meiri en á­hættan,“ segir Rúna um málið.

Að sögn Rúnu er það í höndum lyfja­yfir­valda í hverju landi fyrir sig hvernig bólu­setningu með bólu­efninu verður háttað, saman­ber þegar á­kveðin lönd á­kváðu að bólu­setja ekki aldraða þrátt fyrir að ekkert slíkt hafi komið fram í til­mælum Lyfja­stofnunar Evrópu.

„En það er mikil­vægt að skoða þetta því það getur vel verið að með ein­hverjum varnaðar­orðum, með því að vekja at­hygli á þessu, þá sé hægt að komast hjá því,“ segir Rúna og vísar til mögu­legra auka­verkanna.