Fjór­tán ára stúlka frá Kaup­manna­höfn lést í rússí­bana­slysinu sem varð í Fri­heden tívolíinu í Ár­ósum fyrr í dag. Einnig slasaðist fjór­tán ára drengur í slysinu, áverkar voru á höndum hans.

Lög­reglan á Austur-Jót­landi stað­festir þetta við Dan­marks Radio. Lög­reglan var kölluð út rétt fyrir klukkan eitt á staðar­tíma,

Bilun varð á Cobra rússí­bana í tívolíinu, en hann er 25 metrar á hæð og getur farið á allt að 70 kíló­metra hraða. Lögreglan mun rannsaka tildrög slyssins frekar.

Tívolíinu hefur verið lokað og óvíst er hvenær það opnar aftur. Gestum tívolísins hefur verið boðin áfallahjálp.

Henrik Rag­borg, for­stjóri tívolísins sagði að aftasti vagninn í rússí­bananum hafi losnað og við það hafi tveir far­þegar slasast. Síðar kom í ljós að það voru stúlkan sem lést og drengurinn sem slasaðist á höndum.

Þetta er ekki fyrsta slysið sem verður í þessum rússíbana. Árið 2008, stuttu eftir að rússíbaninn var fyrst tekinn í notkun, þá losnaði vagn með þeim afleiðingum að fjórir einstaklingar slösuðust alvarlega.

Fréttin hefur verið uppfærð.