Karl­maður á sex­tugs­aldri var í dag dæmdur í fjór­tán ára fangelsi fyrir að verða eigin­konu sinni að bana á heimili þeirra í Sand­gerði í mars á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Maðurinn sat í gæslu­varð­haldi um sex mánaða skeið þar til Lands­réttur felldi varð­haldið úr gildi í októ­ber. Á­stæða þess var að mats­menn töldu mögu­legt að konan hafi látist af öðrum völdum en köfnun.

Upp­haf­lega var ekki talið að neitt sak­næmt hafi átt sér stað við lát konunnar en við nánari at­hugun töldu réttar­meina­fræðingar að konan hefði verið myrt. Í krufningar­skýrslu er dánar­or­sök talin kyrking og ákæran byggð á því. Fjórum dögum eftir and­lát konunnar var maðurinn því hand­tekinn og úr­skurðaður í gæslu­varð­hald.

Um miðjan októ­ber úr­skurðuðu dóm­kvaddir mats­menn að mögu­legt væri að konan hefði látist af á­fengis- og lyfja­eitrun. Í niður­stöðum þeirra kom fram að ekki væri unnt að stað­festa að kraft­beiting gegn hálsi hafi átt sér stað rétt fyrir and­látið, heldur kynni hún að hafa átt sér stað allt að þremur dögum fyrir það. Í kjöl­farið var manninum sleppt úr gæslu­varð­haldi.

Maðurinn neitaði sök í málinu en aðal­með­ferð fór fram um miðjan nóvember. Fjöldi vitna gaf skýrslu við aðal­með­ferðina, þar á meðal börn brota­þola. Á­kvörðun um lokun þing­halds var tekin með hags­muni barnanna að leiðar­ljósi og vegna mynd­efnis sem varpa þurfi á skjái í dóm­sal, meðal annars um krufningu.