Lands­réttur stað­festi í dag 14 ára fangelsis­dóm yfir karl­manni á sex­tugs­aldri fyrir að hafa orðið eigin­konu sinni að bana í Sand­gerði í mars í fyrra.

Manninum var gefið að sök að hafa myrt eigin­konu sína 28. mars 2020 með því að þrengja að hálsi hennar með þeim af­leiðingum að hún lést af völdum köfnunar.

Á­kæru­valdið á­frýjaði dómnum til Lands­réttar í von að refsing yfir manninum yrði þyngd en hann var einnig dæmdur í 14 ára fangelsi í héraði.

Karl­maðurinn bar fyrir sig minnis­leysi en hann var hand­tekinn fjórum dögum eftir at­burðinn þegar að bráða­birgðaniður­staða krufningar lá fyrir. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa beitt eigin­konu sína of­beldi að neinu tagi.

Fyrir héraðs­­dómi lýsti maðurinn því að þau hjónin hefðu verið við drykkju föstu­­dags­­kvöldið 27. mars og eitt­hvað fram eftir. Hann kvaðst hafa farið í „blackout“ en myndi síðast eftir sér í sófa í stofunni að horfa á sjón­­varp.

Hann hefði rumskað í sófanum um morguninn eða um há­­degis­bil en snúið sér á hina hliðina og haldið á­­fram að sofa. Hann hefði síðan vaknað síðla dags og þá komið að eigin­konu látinni í hinum sófanum í stofunni.

Frá­sögn mannsins er í sam­ræmi við gögn sem liggja fyrir um net­notkun og hreyfingu Gallup-mæla sem hann og eigin­kona hans báru og nema hljóð úr út­sendingum hljóð­varps og sjón­varps.

„Þannig kom fram hreyfing á framan­­greindum mælum þeirra beggja eftir klukkan 6:11 að morgni laugar­­dagsins 28. mars en eftir klukkan 12:03 nam mælir A (eigin­konunnar) ekki hreyfingu. Hreyfing mældist ekki á mæli á­kærða frá klukkan 12:41 til klukkan 17:13 en þá nam mælirinn hreyfingu til klukkan 17:33. Á þeirri stundu voru mælar A (konunnar) og á­kærða báðir settir í hleðslu. Þá liggur fyrir að í heimilis­­tölvu var opnað mynd­band á netinu klukkan 11:28 og verður ráðið af gögnum málsins að net­­notkun hafi varað til klukkan 13:29,“ segir í dómi Lands­réttar.

Í héraðs­dómi var einnig rakin fram­burðar vitna á vett­vangi, lög­reglu­manna og læknis, um hegðun á­kærða, einkum í tengslum við ljós­myndum og skoðun á líkinu. „Þá kemur fram að á­kærði gaf þá skýringu á því að hann hringdi ekki í Neyðar­línuna að hann hafi ekki verið í nokkrum vafa um að konan var látin,“ segir í dómi Lands­réttar.

Réttar­meinar­fræðingar klofnir um dánarorsök

Alls komu fimm réttar­meina­fræðingar að málinu. Tveir unnu réttar­krufningu á líki hinnar látnu, einn til var dóm­kvaddur á rann­sóknar­stigi málsins og tveir í við­bót eftir að á­kæra var gefin út. Hinum síðast­nefndu var þó ekki falið að leggja heild­stætt mat á dánar­or­sök, heldur að svara til­teknum spurningum.

Í dómi Lands­réttar kemur fram að þrír réttar­meina­fræðingar hafi komist að þeirri niður­stöður að dánar­or­sök hafi verið köfnun vegna kyrkingar­taks annars manns. Þá var það jafn­framt niður­staða hinna tveggja að konan hafi orðið fyrir þrýstings­á­verkum á hálsi sem leitt hafi getað til dauða hennar.

Í mats­­gerð þeirra tveggja síðast­­nefndu kom þó fram að ef horft væri ein­­göngu til á­­fengis­­magns í blóði konunnar væri mögu­­legt að hún hefði látist af völdum eitrunar­á­hrifa klórdía­sepoxíðs, um­­brots­efna þess og á­­fengis.

Við mat á þeirri á­­lyktun verður horft til þess að hlut­­verk mats­mannanna tveggja eins­korðaðist við að svara af­­mörkuðum spurningum um mögu­­lega dánar­or­­sök en ekki að vinna yfir­­mat á niður­­­stöðum mats­­gerðar sem lá fyrir um dánar­or­­sök eða yfir­­fara niður­­­stöður réttar­krufningar, svo sem að framan er rakið.

Maðurinn var að lokum fundinn sekur fyrir að hafa banað eigin­konu sinni og var um á­setnings­verk að ræða. „Eins og málið liggur fyrir verður engu slegið föstu um að­­draganda verksins eða hvaða hvatir lágu að baki því,“ segir í dómi Lands­réttar.

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í fangelsi í fjór­tán ár að frádregnum gæsluvarðhaldi frá því 13. janúar 2021.