Seint í gærkvöld, klukkan hálf tólf, fékk lögregla tilkynningu um umferðarslys í Garðabæ, en þar lentu saman bifreið og létt bifhjól. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ökumaður bifhjólsins var einungis fjórtán ára og var ekki með hjálm. Hann kvartaði undan höfuðverk og var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild Landspítalans. Fram kemur að móðir drengsins hafi verið á vettvangi.

Í dagbók lögreglunnar er einnig sagt frá því að ölvaður maður hafi verið handtekinn í Grafarvogi. Hann á að hafa verið að ónáða fólk og fara ekki að fyrirmælum lögreglu, en hann var var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Þá er greint frá þjófnaði í verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Þar stal maður þremur ilmvatnsglösum. Fram kemur að hann sagðist hafa haldið að hann mætti taka glösin þar sem um væri að ræða ilmvatnsprufur, og tók fram að slíkt þætti í lagi í heimalandi hans.