Fjór­tán ára drengur lést eftir að hann féll út tívolí­tæki í ICON skemmti­garðinum í Flórída síðast­liðinn þriðju­dag. NBC news greina frá.

Drengurinn, Tyre Samp­son, var frá Mis­souri í Banda­ríkjunum en var í ferða­lagi með fót­bolta­liði sínu í Flórída.

Hann var mikill að­dáandi skemmti­garða en tækið sem Tyre féll úr er yfir 130 metra hár fall­t­urn. Vitni að slysinu höfðu sam­band við neyðar­línuna og til­kynntu að ein­hver hefði fallið úr tækinu á þriðju­dag. Þegar við­bragðs­aðilar komu á staðinn um klukkan ellefu að kvöldi var Tyre mikið slasaður en hann lést skömmu síðar af sárum sínum á Arn­old Pal­mer sjúkra­húsinu í Or­lando.


„Orð geta ekki líst því hvernig okkur líður.“

Tækið, sem kallast Free Fall, var nýtt í ICON garðinum og var skoðað í fyrsta skipti þann 20. desember í fyrra. Við þá skoðun kom ekkert at­huga­vert í ljós en tækið hefur ekki verið skoðað síðan vegna þess hversu nýtt það er, einungis er þess krafist að tækið sé skoðað skoðað tvisvar sinnum á ári.

„Orð geta ekki líst því hvernig okkur líður,“ sagði John Stine, for­stöðu­maður sölu- og markaðs­sviðs S­lings­hot Group of Companies, sem er eig­andi og rekstrar­aðili Free Fall turnisns. „Við sendum okkar dýpstu sam­úðar­kveðjur til fjöl­skyldu þessa unga manns og það er allt sem við getum sagt á þessum tíma.“

Átti framtíðina fyrir sér

Carl Sam­son, föður­bróðir Tyre, segir frænda sinn hafa verið gáfaðan, kurteisan og góðan dreng sem hafi átt fram­tíðina fyrir sér. For­eldrar hans séu í sárum.

Svipuðu tæki lokað í Dollywood

Skemmti­garðurinn Dollywood sem er í eigu söng­konunnar Dolly Parton hefur tíma­bundið lokað tæki í skemmti­garði sínum í Tennes­se sem er frá sama fram­leiðanda og tækið sem Tyre féll úr.

„Þrátt fyrir að þetta til­tekna tæki sé ekki í Dollywood er öryggi gesta okkar í for­gangi,“ sagði í til­kynningu frá Dollywood.