Fjórir varamenn munu taka sæti á Alþingi við þingsetningu í dag. Forseti Íslands setur Alþingi eftir hádegi í dag en vegna kórónuveirufaraldursins er aðeins örfáum gestum boðið að vera viðstaddir við athöfnina.

Allir gestir, þar með taldir fjölmiðlar, þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi.

Fjórir þingmenn verða fjarverandi í dag, ýmist vegna vinnu erlendis eða annars og því munu fjórir varamenn taka sæti fyrir þeirra hönd.

Kári Gautason tekur sæti sem varamaður fyrir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri Grænna. Anna Kolbrún Árnadóttir tekur sæti fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þingmanns Miðflokksins.

María Rut Kristinsdóttir tekur sæti sem varamaður fyrir Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmanns Viðreisnar og Indriði Ingi Stefánsson tekur sæti fyrir Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata.

María Rut greindi frá því á Facebook-síðu sinni að hún væri að taka sæti í fyrsta sinn á Alþingi í dag.

„Vikan sem átti að vera bara svona nokkuð hefðbundin, með nokkuð hversdagslegum ákvörðunum á borð við hvað eigi að vera i matinn, tók heldur betur u-beygju í gær,“ segir María Rut jafnframt og bætir við að hún muni einnig sitja sögulegan þingfund á fimmtudag sem hluti af þingflokki Viðreisnar.

Þar vísar María Rut fundarins á fimmtudag þar sem atkvæðagreiðsla vegna kjörbréfa Norðvesturkjördæmis fer fram. „Hvílíkur heiður!“ segir María Rut í færslu sinni.