Fjórir sextán ára piltar voru dæmdir fyrir líkamsárás á jafnaldra sinn í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Árásin var framin á Ljósanótt í Reykjanesbæ aðfararnótt 2. September 2017 og þótti bæði einbeitt og unnin af heift. Enginn piltana játaði sök og kvaðst sá sem þyngsta dóminn fékk ekki hafa verið á staðnum en hinir ýmist vildu ekki tjá sig um hvort þeir voru á staðnum eða þeir sögðust hafa verið vitni að slagsmálum sem þeir tóku engan þátt í.

Í dóminum er meðal annars vísað til myndbandsupptöku sem til er af hluta árásarinnar og á henni sjáist greinilega hvar einn pilturinn veitist að brotaþola með ítrekuðuðum hnefahöggum sem varði í um 15 sekúndur áður en sá sem fyrir árásinni varð féll til jarðar.

Í framhaldinu sýni myndbandsupptakan alla fjóra ákærðu gera aðsúg að piltinum með spörkum og hnefahöggum.

Árásin varð fyrir framan matsölustaðinn Ungó við Hafnargötu í Keflavík. Drengurinn hlaut mar og bólgu við vinstra auga, skrámusár á vinstra hné, þreyifieymsl í andliti, hálsi, hnakka og í bakvöðvum sitt hvoru megin við hryggjarsúlu og eymsl í framhandlegg og lærlegg.

Þrír voru dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar í einn mánuð en sá sem átti frumkvæðið fékk tveggja mánaða skilorðsbundna refsingu.