Tveir eru alvarlega særðir í kjölfar hnífaárásar nærri fyrri skrifstofum skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo í París. Upphaflega taldi lögregla að fjórir væru særðir en nú hefur verið staðfest að fórnarlömbin eru tvö.

Maður hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn eftir að lögregla greindi frá því að minnst einn hafi reynt að komast undan. Nokkru seinna greindu miðlar frá því að annar hafi verið handtekinn.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að eggvopn, sem hafi verið lýst sem sveðju eða kjötöx, hafi fundist á vettvangi árásarinnar. Þá sást hinn grunaði í blóðugum fötum, að sögn franskra miðla. Hryðjuverkadeild lögreglunnar er nú sögð hafa tekið yfir rannsókn málsins.

Fólki er ráðlagt að forðast nærliggjandi svæði og hefur löggæsla verið stóraukin nærri vettvangnum. Þá eru nokkrir nærliggjandi skólar sagðir hafa lokað í kjölfar árásarinnar.

Árásin á sér stað á sama tíma og réttarhöld fara fram yfir 14 aðilum sem eru sakaðir um að hafa aðstoðað tvo íslamska öfgamenn við að framkvæma skotárás á skrifstofu Charlie Hebdo árið 2015. 12 létust í þeirri árás og er núverandi staðsetningu Charlie Hebdo haldið leyndri af öryggisástæðum.

Sú árás var gerð eftir að blaðið birti skopmyndir af Múhameð spámanni. New York Times greinir frá því að að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hafi nýlega hótað Charlie Hebdo eftir að blaðið tók ákvörðun um endurbirta skopmyndirnar þegar áðurnefnd réttarhöld hófust.

Fréttin hefur verið uppfærð.