Fjórir karl­menn létust og sex aðrir særðust eftir að á­rásar­maður skaut á hóp fjöl­skyldu og vina í gær­kvöldi í Kali­forníu. Sam­kvæmt frétt CNN um málið var hópurinn saman kominn til að horfa á leik í amerískum fót­bolta í bak­garði í Fresno þegar ó­kunnugur maður gekk inn í garðinn og hóf skot­hríð.

Lög­reglunni í Fresno bárust fjöl­margar til­kynningar um á­rásina í kringum klukkan 20 að staðar­tíma en þó­nokkrir reyndust vera særðir eftir á­rásina. Að sögn að­stoðar­lög­reglu­stjóra voru allt að fjöru­tíu manns á staðnum, þar á meðal talið ein­hver börn, þegar maðurinn skaut á við­stadda.

Leita upplýsinga um hinn grunaða

Þrír menn voru úr­skurðaðir látnir á vett­vangi en annar maður sem fluttur var á spítala lést af sárum sínum skömmu síðar. Sex aðilar til við­bótar voru fluttir á slysa­deild en eru þau ekki talin vera í lífs­hættu.

Lög­reglan leitar nú um hinn grunaða frá fólki í hverfinu en lýsing á manninum liggur ekki fyrir að svo stöddu. Þá segir lög­regla að ekkert bendi til þess að maðurinn hafi þekkt fólkið sem var á heimilinu þegar á­rásin átti sér stað.