Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir að rannsókn á árásinni á Bankastræti Club og á hótunum sem fylgdu á samfélagsmiðlum, miði vel. Gæsluvarðhald yfir fjórum einstaklingum sem taldir eru tengjast árásinni hefur verið framlengt.
„Við erum núna að átta okkur meira á aðdragandanum á þessari árás, hver var ástæðan fyrir árásinni,“ segir Margeir.
Margeir segir að það séu sex í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
„Gæsluvarðhaldið hjá fjórum af sex einstaklingum átti að renna út í dag, en það hefur verið fengin framlenging á gæsluvarðhaldinu,“ segir Margeir.
Margeir segir að lögreglan hafi ekki beðið fólk um að halda sig frá miðbænum um helgina, en þegar umræðan er eins og hún hefur verið síðustu daga, þá séu engar áhættur teknar. Að sögn Margeirs gekk helgin vel og telur hann að lögregla hafi komið í veg fyrir að hótunum hafi verið fylgt eftir.
„Það hafa þrír verið teknir í tengslum við að framkvæma þessar hótanir sem gengu á samfélagsmiðlum. Þannig við teljum okkur hafa náð utan um það líka og það er komið stopp í bili,“ segir Margeir.
Í dag náði ljósmyndari Fréttablaðsins mynd af lögreglu að leiða mann í gæsluvarðhald. Margeir staðfesti að gerðar hafi verið fjórar kröfur um gæsluvarðhald, en hann vildi ekki staðfesta að það tengdist árásinni á Bankastræti Club.
