Margeir Sveins­son, yfir­lög­reglu­þjónn á höfuð­borgar­svæðinu segir að rann­sókn á á­rásinni á Banka­stræti Club og á hótunum sem fylgdu á sam­fé­lags­miðlum, miði vel. Gæslu­varð­hald yfir fjórum ein­stak­lingum sem taldir eru tengjast árásinni hefur verið fram­lengt.

„Við erum núna að átta okkur meira á að­dragandanum á þessari árás, hver var á­stæðan fyrir á­rásinni,“ segir Margeir.

Margeir segir að það séu sex í gæslu­varð­haldi vegna málsins.

„Gæslu­varð­haldið hjá fjórum af sex einstaklingum átti að renna út í dag, en það hefur verið fengin fram­lenging á gæslu­varð­haldinu,“ segir Margeir.

Margeir segir að lög­reglan hafi ekki beðið fólk um að halda sig frá mið­bænum um helgina, en þegar um­ræðan er eins og hún hefur verið síðustu daga, þá séu engar á­hættur teknar. Að sögn Margeirs gekk helgin vel og telur hann að lög­regla hafi komið í veg fyrir að hótunum hafi verið fylgt eftir.

„Það hafa þrír verið teknir í tengslum við að fram­kvæma þessar hótanir sem gengu á sam­fé­lags­miðlum. Þannig við teljum okkur hafa náð utan um það líka og það er komið stopp í bili,“ segir Margeir.

Í dag náði ljós­myndari Frétta­blaðsins mynd af lög­reglu að leiða mann í gæslu­varð­hald. Margeir stað­festi að gerðar hafi verið fjórar kröfur um gæslu­varð­hald, en hann vildi ekki stað­festa að það tengdist á­rásinni á Banka­stræti Club.

Margeir Sveins­son, yfir­lög­reglu­þjónn á höfuð­borgar­svæðinu segir að lögregla sé að átta sig meira á aðdraganda árásarinnar á Bankastræti Club.
Ljósmynd/Almannavarnir