Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fjóra og framkvæmdi húsleit á sex stöðum í umdæminu og utan þess í morgun, en aðgerðirnar tengjast rannsókn hennar á manndrápi í Rauðagerði þann 14. febrúar síðastlðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Búast má við annarri tilkynningu frá lögreglu vegna fyrrnefndra aðgerða þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.

Skotvopnið enn ófundið

Armando Bequiri sem lést fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan febrúar var með áverka eftir níu skotsár. Skotvopnið hefur enn ekki fundist.

Þrír sitja nú í gæsluvarðhaldi, tveir karlmenn og ein kona. Einn þeirra situr nú í fjögurra vikna gæsluvarðhaldi. Um er að ræða albanskan karlmann sem grunaður er um að hafa skotið Armando til bana.

Ekki er vitað á þessu stigi hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þeim sem handteknir voru í morgun.

Sex eru í farbanni vegna rannsóknarinnar og tólf hafa réttarstöðu sakbornings.

Lögregla telur ljóst að um morðið á Armando hafi verið undirbúið í samverknaði nokkurra sakborninganna og jafnvel með hlutdeild annarra.

Mikið gagnamagn er nú til rannsóknar hjá lögreglu, þar á meðal eru fjarskiptagögn og upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Fréttin hefur verið uppfærð.