Um klukkan hálf fjögur í nótt var tilkynnt um líkamsárás eða rán í Breiðholti. Fjögur voru handtekin í útkallinu og vistuð vegna rannsóknar málsins í fangageymslu lögreglu. Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Þetta kemur fram í löngu skeyti frá lögreglu, þar sem verkefni næturinnar voru tíunduð.

Um miðnæturbil var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í miðborginni. Þrír voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Dyraverður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Laust fyrir klukkan tvö var maður handtekinn grunaður um þjófnað úr verslun. Hann fór sömu leið og hinir; í fangelsi. Dóp fannst á manninum við leit.

Í gærkvöldi, um klukkan hálf níu, voru tveir þjófar handteknir í Hafnarfirði. Þeir voru vistaðir í fangageymslum, sem eru fullar eftir nóttina.

Stuttu fyrir klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um slys á veitingahúsi í Hafnarfirði. Í skeyti lögreglu segir að ofurölvi maður hafi dottið á andlitið. Maðurinn var að sögn fluttur á slysadeild með sjúkrabíl en við flallið brotnuðu meðal annars í honum tennur. Hann hefði þurft að drekka minna.

Þá voru ellefu ökumenn teknir fyrir ölvun við akstur í nótt; sumir þeirra voru undir áhrifum fíkniefna. Sex þeirra óku auk þess án þess að hafa til þess ökuleyfi. 

Hér eru öll verkefni lögreglu:

19:38    Bifreið stöðvuð í hverfi 104.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

20:44    Tilkynnt um líkamsárás í hverfi 101.  Maður kýldur ítrekað í andlitið og var árásaraðili farinn af vettvangi  er lögregla kom.

22:01    Bifreið stöðvuð í hverfi 105.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

22:48    Bifreið stöðvuð í hverfi 101.  Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum.

00:10    Afskipti höfð af manni í verslun, hverfi 108.  Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna.

00:11    Tilkynnt um líkamsárás, veitingahús í miðborginni 101.  Þrír menn handteknir og vistaðri fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Árásarþoli ( dyravörður )  fluttur á Slysadeild til aðhlynningar.

01:48    Maður í annarlegu ástandi handtekinn grunaður um þjófnað  úr verslun.  Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Við vistun fundust ætluð fíkniefni hjá manninum.

02:04  Bifreið stöðvuð í hverfi 101.  Ökumaðurinn hafði notað áfengi fyrir akstur en blés undir refsimörkum og hafði aldrei öðlast ökuréttindi.  Aksturinn stöðvaður og lykill haldlagður.

02:45    Bifreið stöðvuð í hverfi 101.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

04:57    Tilkynnt um eignaspjöll í hverfi 101.  Kona sparkar í leigubifreið.

Stöð 2 Hafnarfjörður-Garðbær-Álftan

20:28    Tveir menn grunaðir um þjófnað  handteknir í Hafnarfirði 220 .  Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

23:30    Afskipti höfð af manni í Hafnarfirði 220 vegna vörslu fíkniefna.

03:37    Ölvaður maður handtekinn við verslun í Garðabæ 210.  Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

 03:53    Tilkynnt um slys, veitingahús í Hafnarfirði 220.  Ofurölvi maður dettur á andlitið.  Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild.  Brotnar tennur ofl.

Stöð 3 Kópavogur og Breiðholt

20:40    Bifreið stöðvuð í Breiðholti 109.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.

21:15    Bifreið stöðvuð í Kópavogi 200.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

21:55    Bifreið stöðvuð í Kópavogi 201.  Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.  

22:14    Bifreið stöðvuð í Kópavogi 200.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis + fíkniefna, ítrekaðan akstur án réttinda þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi og vörslu fíkniefna.

22:56    Maður í annarlegu ástandi handtekinn í Breiðholti 109 grunaður um húsbrot.  Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

03:19    Maður handtekinn á veitingahúsi í Kópavogi 201.  Maðurinn er grunaður um líkamsárás og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

03:20    Tilkynnt um líkamsárás / rán í Breiðholti 111.  Fjögur handtekinn og vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Árásarþoli fluttur á Slysadeild til aðhlynningar.

Stöð 4 Grafarvogur-Mosfellsbær-Árær.

20:37    Bifreið stöðvuð í hverfi 113.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

22:38    Bifreið stöðvuð í Mosfellsbæ 270.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi og vörslu fíkniefna.

Þá eru fangageymslur í Reykjavík  fullar og byrjað að vista í Hafnarfirði.