Fjórir greindust með COVID-19 innanlands í gær, þar af voru tveir í sóttkví. Allir greindust í einkennasýnatöku.
Þá greindust einnig fjórir farþegar á landamærunum í gær, töluvert færri en undanfarna daga. Tvö smitanna eru virk en hin tvö bíða niðurstöðu úr mótefnamælingu.
Alls voru tekin 881sýni innanlands og 410 á landamærum, töluvert færri en í gær þegar 889 sýni voru tekin á landamærum en þá greindust 26.
19 eru inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna veirunnar, einn með virkt smit en hinir með eldra smit. Sjúklingur á blóð- og krabbameinsdeild Landspítalans var lagður inn á covid göngudeild í gær eftir að hafa reynst smitaður.
169 manns eru nú í einangrun og með virkt smit og fjölgar um fimm á milli daga. 228 eru í sóttkví í gær en þeir voru 242 í gær.
Nýgengni innanlandssmita, sem er fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 18,0 líkt og í gær. Nýgengni landamærasmita er 28,1.
Upplýsingafundur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis fer fram klukkan 11:00 í dag.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir fer yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 hér á landi ásamt Rögnvaldi Ólafssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni. Gestur fundarins er Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum.