Fjórir eru á gjörgæslu eftir að jeppi og jepplingur skullu saman á þjóðveginum í grennd við Skeiðará í dag. Þar af eru þrjú börn á aldrinum fimm til tíu ára sem voru öll í sama bílnum.

Hinir þrír eru minna slasaðir en voru enn í rannsóknum á bráðamóttöku þegar Fréttablaðið ræddi við Jón Magnús Kristjánsson, yfirlækni bráðalækninga á Landspítalanum. Alls voru níu ferðamenn, frá Frakklandi og Suður-Kóreu, í bílunum og voru allir sem slösuðust, sjö manns, fluttir með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku í Reykjavík til aðhlynningar.

Mikil hálka og vindur á slysstað

Grímur Hergeirsson, settur lögreglustjóri á Suðurlandi, segir ekki orðið fullljóst hver tildrög slyssins voru en annar bíllinn hafi farið inn á öfugan vegarhelming og lent á hinum.

„Við getum ekki enn fullyrt hvað það var sem fór úrskeiðis. Það sem við vitum er að það var mjög hált þegar slysið varð á veginum og töluverður vindur.“

Hvort einhver keyrði of hratt miðað við aðstæður eða það hafi bara verið hálka vitum við ekki, en oft er það nú sambland af þessu," segir Grímur í samtali við Fréttablaðið.

„Þó er ekkert sem bendir til þess að það um hraðakstur hafi verið að ræða en við erum að erum að safna saman gögnum og reyna að finna út hvað fór úrskeiðis.“

Þurfti að klippa einn farþega úr bílflakinu

„Tilkynnt var um slysið 13:44 og frá því að tilkynningin kemur og fyrstu viðbragðsaðilar koma á staðinn eftir rúmlega hálftíma,“ segir Grímur.

„Björgunaraðgerðin gekk vel þó það hafi tekið svolítinn tíma að klippa einn farþegann úr bílnum sem var illa klemmdur. En það sem gerir þetta snúið á þessu svæði er að það er langt á milli staða þar sem eru mannaðar sveitir viðbragðsaðila.“

Jón Magnús segir að biðin á vettvangi hafi þó ekki haft afgerandi áhrif á meiðsl fólksins en það hafi skipt sköpum að viðbótarrými hafi verið opnuð á efri hæð bráðamóttökunnar við að taka á móti hinum slösuðu.