Vigdís Hauksdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Miðflokksins, vonast til að tveggja flokka stjórnkerfi taki gildi sem fyrst á Íslandi á ný. Núverandi þriggja flokka ríkisstjórn þýði stóraukinn kostnað fyrir skattgreiðendur af því að hver flokkur þurfi að fá sitt.

„Enn kostnaðarsamara hefur verið að vera með fjóra flokka í borgarstjórninni,“ segir Vigdís.

Hún veltir fyrir sér hvort tveggja flokka ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins gæti aftur orðið veruleiki eftir nokkurt hlé.

„Ég veit samt ekki hvað þarf til að rífa Sjálfstæðisflokkinn aftur í gang. Bankasölumálið skemmdi svakalega fyrir flokknum,“ segir hún um úrslit sveitarstjórnarkosninganna. Á sama tíma bendir hún á að Framsóknarflokkurinn sé á miklu flugi. Því kunni að fara svo að Íslendingum bjóðist á ný tveggja flokka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Vigdís viðurkennir að Miðflokkurinn hafi ekki riðið feitum hesti frá kosningunum um helgina en bendir á að fyrir fjórum árum hafi unnist góður sigur í borginni þegar hún var oddviti.