Ásdís Kristjánsdóttir, nýráðinn bæjarstjóri Kópavogs, er með hæstu laun bæjar- og sveitarstjóra samkvæmt óformlegri könnun Fréttablaðsins á launakjörum í nokkrum fjölmennustu sveitarfélögunum, rúmar 2,5 milljónir króna. Sveitarfélögin eru um þessar mundir að semja við bæjarstjóra og margir þeirra fá hærri laun en æðstu embættismenn ríkisins.

Almar Guðmundsson, nýr bæjarstjóri Garðabæjar, er með tæpar 2,5 milljónir króna sem er lækkun því forveri hans, Gunnar Einarsson var kominn yfir 3 milljónir eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skemmstu. Í þriðja sæti er Kjartan Már Kjartansson í Reykjanesbæ með rúmar 2,4 milljónir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er aðeins í fimmta sæti miðað við þá samninga sem fram eru komnir. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, fær um 160 þúsund krónum meira í laun en hann og er í fjórða sæti.

Hafa ber í huga að enn er ósamið við nokkra bæjarstjóra. Til að mynda Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, og Þór Sigurgeirsson, nýjan bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, en þessi tvö sveitarfélög hafa verið í fremstu röð þegar kemur að launaþróun. Enn á eftir að ráða bæjarstjóra í mörgum sveitarfélögum. Til dæmis Mosfellsbæ, Norðurþingi og Fjallabyggð.

Launahæstu bæjarstjórarnir eru með hærri laun en ráðherrar og seðlabankastjóri. Hæstu fjórir, Ásdís, Almar, Kjartan Már og Ásthildur eru með hærri laun en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Laun annarra bæjarstjóra sem Fréttablaðið kannaði eru í kringum 2 milljónir og virðist skipta litlu hversu fjölmenn sveitarfélögin eru. Til að mynda kosta laun Dags B. Eggertssonar hvern borgarbúa 16 krónur á mánuði en hver íbúi Ölfuss greiðir Elliða Vignissyni 841 krónu. Munurinn er rúmlega fimmtíufaldur.

Formenn bæjarráða sjá um að semja við bæjarstjóra fyrir hönd sveitarfélagsins og í þremur tilfellum eru það einstaklingar sem þegar hefur verið ákveðið að taki við bæjarstjórastarfinu á miðju kjörtímabili. Það er Valdimar Víðis­son í Hafnarfirði, Bragi Bjarnason í Árborg og Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur. Þrátt fyrir þennan hagsmunaárekstur eru Árborg og Reykjavík ekki leiðandi í launaþróuninni.

Þó að heildarlaunaupphæðin sé oftast svipuð hjá bæjarstjórum landsins þá er afar mismunandi hvernig launin skiptast. Til að mynda eru grunnlaun hjá bæjarstjórum sem eru ráðnir utanaðkomandi oft hærri en hjá þeim sem sitja einnig sem bæjarfulltrúar og þiggja laun sem slíkir. Þeim sem eru með lægri grunnlaun, til dæmis bæjarstjórar Ísafjarðar og Múlaþings, er bætt það upp með föstum yfirvinnutímum.

Bílastyrkir eru afar mismunandi og virðist stærð sveitarfélaganna og fjarlægð frá helstu opinberu stofnunum ekki skipta neinu máli hvað það varðar. Til að mynda fær bæjarstjóri Kópavogs næstum 160 þúsund krónur í bílastyrk og bæjarstjóri Garðabæjar 105 þúsund. Bæjarstjóri Borgarbyggðar fær hins vegar 85 þúsund og bæjarstjóri Ísafjarðar aðeins 60 þúsund, þrátt fyrir að spanna 5 þéttbýliskjarna í töluverðri fjarlægð frá hvorum öðrum og frá helstu opinberu stofnunum landsins.

Í þessari óformlegu könnun Fréttablaðsins er ekki gert ráð fyrir öðrum hlunnindum bæjarstjóra. Svo sem síma, neti, áskriftum og ferðapeningum.