Í dag eru fjörutíu ár frá því að platan Ísbjarnarblús með Bubba Morthens kom út. Platan, sem kom út þann 17. júní árið 1980, er af mörgum talin hafa breytt íslenskri tónlistarsögu.

Ísbjarnarblús var fyrsta plata Bubba sem var þá 24 ára. Söng hann um harðan heim hins vinnandi manns. Með textunum er Bubbi sagður hafa gefið íslenskri verkalýðsstétt nýja rödd.

Dr. Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði við Háskóla Íslands og tónlistarfræðingur, segir að með útgáfu plötunnar hafi Bubbi kynnt sig fyrir íslensku þjóðinni.

„Tónlistin á plötunni er einhvers konar blanda af mótmælasöngvum og þjóðlagatónlist en líka smá pönk­rokki. Sterkir, beittir textarnir vöktu þá athygli,“ segir Arnar.

hb_arnar-eggert-thoroddsen.png

Arnar Eggert Thoroddsen

„Bubbi hafði verið að spila á alls kyns uppákomum og vísnavina­kvöldum en þarna stígur hann í fyrsta skipti fram á plötu og það með nokkuð afgerandi hætti,“ heldur Arnar áfram. „Þarna heyrir almenningur í fyrsta sinn þessa sterku söngrödd, kynnist þessari náðargáfu hans við að setja saman lög og í textagerð stígur hann ástríðufullur fram og segir hlutina með skýrum og ákveðnum hætti. Eitthvað sem hann hefur gert alla tíð síðan í raun.“

Frá því að Ísbjarnarblús kom út hefur Bubbi sent frá sér yfir fimmtíu plötur, síðast Regnbogans stræti í fyrra.
Flestir þekkja mörg laga og texta Bubba. Ekki nokkur íslenskur tónlistarmaður hefur selt fleiri plötur en Bubbi og benda sölutölur til þess að Ísbjarnarblús hafi selst í um 35 þúsund eintökum. Aðspurður hvort lög og textar Bubba hafi haft mikil áhrif á íslensku þjóðina segir Arnar að með útgáfu plötunnar hafi Bubbi einmitt skapað sér ákveðinn vettvang meðal hennar.

„Þetta var á einfaldari tímum þar sem fólk var að kaupa plötur og þessi plata vekur mjög mikla athygli,“ segir Arnar. „Í kjölfarið er Bubbi því kominn með ákveðið svið, ákveðna rödd. Hann er kominn með vald til að koma hlutum á framfæri, hlutum sem brunnu í brjóstinu. Þetta nýtti hann sér svo um munaði á næstu árum, hvort heldur meðvitað eða ómeðvitað.“

Kraftbirtingarmáttur popptónlistarinnar hefur alltaf verið mun meiri en fólk kannski geri sér grein fyrir að sögn Arnars.

„Það að geta orðað einhverjar hörmungar í þriggja mínútna popplagi er mjög sterk leið til að koma skoðunum sínum á framfæri og oft miklu sterkari heldur en til dæmis greinaskrif í dagblaði sem enginn les,“ segir Arnar.