Rúmlega fjórir af hverjum tíu Íslendingum telja sig trúaða. Er nú lítill munur á þeim sem segjast ekki vera trúaðir og vera trúaðir. Þá segjast rúmlega tveir af hverjum tíu ekki geta sagt til um það.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegum niðurstöðum könnunar Maskínu fyrir lífsskoðunarfélagið Siðmennt fyrr á þessu ári sem Fréttablaðið hefur aðgang að.

Kjarninn hefur greint frá hluta niðurstaðnanna. Þegar þær eru bornar saman við könnun frá 2015 sést að trúuðum fækkar og þeim sem telja sig ekki trúaða fjölgar.

Könnunin var gerð dagana 16. til 22. janúar 2020, 954 svöruðu. Samkvæmt upplýsingum frá Maskínu höfðu þátttakendur ekki vitneskju um á hvers vegum könnunin væri.

Samkvæmt könnuninni telur meira en helmingur fólks á aldrinum 18 til 39 ára sig ekki trúaðan. Trú eykst með aldri.

Þá er fólk með aðeins grunnskólamenntun líklegast til að telja sig trúað, eða rúm 53 prósent, á móti tæpum 20 prósentum sem telja sig ekki trúuð.

Staðan snýst við þegar fólk er með framhaldsmenntun úr háskóla. Þá telja tæp 30 prósent sig trúuð á móti 48 prósentum sem telja sig ekki trúuð. Lítill munur er þegar litið er til tekna.

Konur eru líklegri til að vera trúaðar en karlar, 45 prósent á móti 38 prósentum. 41 prósent karla telur sig ekki trúað en 31 prósent kvenna.

Trúuðum fækkar úr 46,6 prósentum árið 2015 í 41,6 prósent í ár. Þá fjölgar þeim sem telja sig ekki trúaða úr tæpum 30 prósentum í 36,1 prósent.

Örlítið fleiri höfuðborgarbúar telja sig ekki trúaða en trúaða, 40 prósent á móti 38 prósentum. Sama er uppi á teningnum á Austurlandi. Mest er trúin á Norðurlandi þar sem 52 prósent telja sig trúuð á móti 20 prósentum sem telja sig ekki trúuð.

Kjósendur Flokks fólksins eru líklegastir til að vera trúaðir. Tæp 73 prósent úr þeim hópi segjast trúuð en 14 prósent ekki trúuð.

Þar á eftir eru Framsóknarmenn með tæp 60 prósent á móti 22 prósentum trúlausra og Sjálfstæðismenn með tæp 59 prósent trúaðra á móti 21 prósenti trúlausra. Minna en helmingur kjósenda Miðflokksins, eða 48 prósent, telur sig trúaðan á móti tæpum 25 prósentum trúlausra. Nærri 45 prósent kjósenda VG eru trúuð á móti rúmum 30 prósentum trúlausra.

Píratar eru ólíklegastir til að telja sig trúaða, tæp 20 prósent á móti tæpum 69 prósentum sem telja sig ekki trúuð. Rúm 32 prósent kjósenda Samfylkingarinnar telja sig trúuð á móti 48 prósentum trúlausra. Þá telja aðeins tæp 24 prósent kjósenda Viðreisnar sig trúaða en rúm 59 prósent trúlaus.