Kosningar fara að ó­breyttu fram á næsta ári en sam­kvæmt stjórn­skipan lýkur kjör­tíma­bilinu í októ­ber á næsta ári. Rætt hefur verið um að halda kosningar fyrr en eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst hefur engin á­kvörðun verið tekin um það.

Frétta­blaðið sendi eftir­farandi spurningu þann 6. maí til allra 63 al­þingis­mannanna: Ætlar þú að gefa kost á þér á­fram í næstu al­þingis­kosningum? Svar­mögu­leikar voru já, nei og ó­á­kveðin/n.

Alls bárust svör frá 42 þing­mönnum en 21 þing­maður svaraði ekki þótt fyrir­spurnin hefði verið í­trekuð þann 12. maí. Sex­tán þing­menn sögðust ekki vera búnir að gera upp hug sinn en 26 sögðust vera á­kveðnir í að gefa kost á sér aftur.

Margir þeirra sem sögðust vera ó­á­kveðnir sögðu ó­tíma­bært að velta mögu­legu fram­boði fyrir sér. Enn væri langt til næstu kosninga og ýmis­legt gæti breyst.

„Fyrir hönd þing­flokks Mið­flokksins var mér falið að svara þessum pósti á þeim nótum að enn er langt til kosninga og því ekki tíma­bært að velta slíku fyrir sér,“ segir í svari Gunnars Braga Sveins­sonar.

Af þeim tíu ráð­herrum sem eiga sæti á Al­þingi bárust að­eins svör frá fjórum: Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra, Guð­laugi Þór Þórðar­syni, utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra, Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra og Lilju Al­freðs­dóttur, mennta- og menningar­mála­ráð­herra. Ás­laug, Guð­laugur og Svan­dís ætla að gefa kost á sér að nýju, en í svari Lilju segir: „Ég hef ekki tekið á­kvörðun um fram­boð. Minn hugur snýr fyrst og fremst að því að leysa þau krefjandi verk­efni sem blasa við stjórn­málum dagsins og vinna fyrir fólkið í landinu.“

Ekki bárust svör frá Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra, Bjarna Bene­dikts­syni fjár­mála­ráð­herra, Ás­mundi Einari Daða­syni, fé­lagsog barna­mála­ráð­herra, Kristjáni Þór Júlíus­syni, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, Sigurði Inga Jóhanns­syni, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra og Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra.

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis og sá þing­maður sem setið hefur lengst á þingi af nú­verandi þing­mönnum, svaraði svona: „Þeir fyrstu sem fá að vita mitt svar við þessari spurningu í fyllingu tímans eru fé­lagar mínir í Norð­austur­kjör­dæmi.“ Stein­grímur hefur setið á þingi frá árinu 1983.