Mikill meirihluti af þeim skömmtum af bóluefni AstraZeneca sem dreift hefur verið til meðlimaþjóða Evrópusambandsins hefur ekki enn verið notaður en að því er kemur fram í frétt Guardian um málið er aðeins búið að nota einn af hverjum fimm skömmtum af bóluefninu.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að Evrópubúar virðist glíma við „viðtökuvanda,“ en margir hafa afþakkað bóluefni AstraZeneca. Ákvörðun yfirvalda víða um heim, um að einstaklingar yfir 65 ára aldri verði ekki bólusettir, hefur líklega spilað hlutverk í þeim vanda en illa hefur gengið að fá yngri einstaklinga til að samþykkja bóluefnið.
„AstraZeneca er áreiðanlegt bóluefni, virkt og öruggt, samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu og mælt með í Þýskalandi upp að 65 ára aldri. Öll yfirvöld segja að hægt sé að treysta bóluefninu. Svo lengi sem bóluefni eru af skornum skammti, er ekki hægt að ákveða hvað þú verður bólusettur með,“ sagði Merkel í viðtali við þýska blaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung um málið.
Staðan svipuð í öðrum löndum
Önnur lönd glíma við sama vanda, á Ítalíu er til að mynda aðeins búið að nota um 19 prósent af skömmtunum, fjögur prósent í Belgíu, og 1,7 prósent í Búlgaríu, samkvæmt samantekt Guardian. Þá virðist staðan vera svipuð í Frakklandi þrátt fyrir að tölurnar hafi ekki verið birtar opinberlega.
Af þeim rúmlega 6,1 milljón skömmtum sem hefur verið dreift til 27 landa eru rúmlega 4,8 milljón skammtar ónotaðir.
Auk þeirrar staðreyndar að það sé aðeins mælst til þess að bóluefnið sé notað á einstaklinga eldri en 65 ára, hefur minni virkni bóluefnisins gegn nýjum afbrigðum veirunnar valdið áhyggjum. Þar að auki er framleiðsluvandi á bóluefninu í Evrópu.
Með minni virkni en önnur bóluefni
Bóluefnið hefur nú fengið skilyrt markaðsleyfi í Bretlandi og innan Evrópusambandsins auk þess sem skammtar af bóluefninu hafa verið sendir til Ghana sem hluti af COVAX-verkefninu. Suður-Afríka hafði þegar fengið skammta senda þegar þau tilkynntu að þau myndu skila þeim þar sem bóluefnið hafði litla sem enga virkni á ný afbrigði veirunnar.
Á Íslandi hefur bóluefni AstraZeneca einnig fengið skilyrt markaðsleyfi en líkt og aðrar Evrópuþjóðir hefur verið ákveðið að þeir sem eru eldri en 65 ára verði ekki bólusettir með bóluefninu. Ísland hefur samið um 230 þúsund skammta af bóluefninu, sem duga þá fyrir 115 þúsund manns.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í morgun að talsvert hafi borið á því að fólk afþakki bólusetningar með bóluefni AstraZeneca þar sem vísbendingar eru um að virkni þess sé aðeins minni en annarra bóluefna. Að sögn Þórólfs er þó ekki hægt að velja sér bóluefni og því færast þeir einstaklingar aftast í röðina.