Starfsmannavelta hjá Vinnueftirlitinu hefur verið mikil og stofnunin varð í þriðja neðsta sæti starfsmannakönnunar meðal stofnana.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skipaði Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur forstjóra Vinnueftirlitsins í lok desember 2018.

Fyrsta starfsár Hönnu hefur gengið brösulega því mikill órói hefur verið meðal starfsfólks. Segja heimildir Fréttablaðsins stjórnunarhætti hennar hluta vandans.

Hanna vísar því á bug. Ýmsar nauðsynlega breytingar hafi verið gerðar á skipulagi.

Sameyki, áður SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, gerir ár hvert umfangsmikla starfsmannakönnun þar sem líðan starfsfólks er mæld. Vinnueftirlitið var í 62. sæti árið 2018 en í niðurstöðunum í ár var stofnunin dottin niður í 80. og þriðja neðsta sæti.

„Vinnueftirlitið hefur lengi komið illa út úr könnun Sameykis. Okkur þótti því mikilvægt að bregðast við þeim niðurstöðum með markvissum hætti,“ segir Hanna. Dýpri könnun hafi sýnt að starfsanda væri ábótavant.

Voru niðurstöðurnar sláandi. Um 25 prósent starfsfólks kváðust hafa upplifað einelti á vinnustað og 20 prósent sögðust hafa upplifað ofbeldi þar.

„Ég legg áherslu á að við tökum þessum ábendingum sem fram koma í könnununum mjög alvarlega og höfum þegar hafið vinnu við að betrumbæta þá þætti sem þær tóku til og fengu slaka útkomu,“ segir Hanna Sigríður. Meðal annars hafi verið samþykkt ný viðbragðsáætlun sem tekur á tilkynningum vegna slíkra mála.

Þá hafi einnig verið gerður samningur við sálfræðistofuna Líf og sál sem er sérhæfð á þessu sviði og starfsfólki bent á að það geti leitað þangað. Farið hafi fram samskiptavinnustofa og ný mannauðsáætlun kynnt fyrir starfsmönnum.

Alls hafa ellefu starfsmenn látið af störfum eða sagt upp það sem af er ári hjá Vinnueftirlitinu en heildarfjöldi starfsmanna hefur verið um sjötíu manns. Að sögn Hönnu var gripið til uppsagna vegna halla sem verið hefur á rekstrinum síðustu ár.

„Það er fullkomlega eðlilegt að við slíkar aðstæður skapist ákveðin óánægja. Við höfum fullan skilning á því og viljum bregðast við því. Verkefni okkar núna er að bæta samskiptin og innri upplýsingagjöf og skapa öfluga liðsheild sem vinnur vel saman,“ segir forstjórinn.

Kristinn Tómasson, fyrrverandi læknir Vinnueftirlitsins og staðgengill forstjóra, hætti um mitt ár. Síðan þá hefur enginn læknir starfað við stofnunina. Lögum samkvæmt á að starfa þar læknir.

Hanna segir að í nýju skipulagi sé gert ráð fyrir sérstakri atvinnusjúkdóma- og heilbrigðisdeild í samræmi við lög. „Það er ekki gert ráð fyrir öðru en að læknir veiti þessari deild forstöðu. Áður en starfið verður auglýst þótti ástæða til að greina nánar hvers konar sérþekkingu þyrfti á að halda innan eftirlitsins með tilliti til þeirra verkefna sem gert er ráð fyrir að læknir sinni,“ segir Hanna.