Tveir af fyrrum burðarbitum fjórflokksins á Íslandi standa enn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Ef fylgi þeirra er borið saman við gullaldarár þeirra verður að segja að vinsældirnar séu aðeins svipur hjá sjón.

Áður fyrr áttu flestar pólitískar skoðanir landsmanna heimili í þeirri fjórskiptu byggð sem samanstóð af Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur runnu saman í Samfylkinguna og heyra því sögunni til hvað fjórflokkakerfið varðar. Fylgi Samfylkingarinnar náði mest 30 prósentum, en flokksmenn urðu að sætta sig við rúm 12 prósent í síðustu þingkosningum. Efnahagshrunið og klofningsframboð eru meðal skýringa sem nefndar hafa verið á veikingu fjórflokksins. Ný öfl leysa gömul af hólmi og veikja þau sem eftir standa.

Sjálfstæðisflokkurinn, í þeirri mynd sem við þekkjum hann í dag, var stofnaður 1929 við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Hann hefur verið ríkjandi í ríkisstjórnum. Flokkurinn fékk 35-46 prósenta fylgi á landsvísu í þingkosningum nánast frá upphafi stofnunar og fram á þessa öld. Síðustu 12 ár hafa Sjálfstæðismenn mátt sætta sig við innan við 30%. Í kosningum 2009, eftir hrunið, varð niðurstaða alþingiskosninganna sú að Sjálfstæðisflokkur fékk 23,7 prósent, sem er versta útkoma flokksins til þessa. Hann fór í 29 prósent árið 2016 en sumar kannanir mæla nú fylgið undir því sem hann hefur minnst fengið áður.

Framsóknarflokkurinn var stofnaður árið 1916 og er því aldurshöfðingi. Flokkurinn var oft áhrifamikill og einkar ríkjandi í stjórnmálasögu 1971-1991. Framsóknarflokkurinn fékk 35,9 prósenta landsfylgi árið 1931. Fylgið rokkaði í kosningum næstu áratugi en var oftast á bilinu 20 til 27 prósent, fram á þessa öld. Árið 2007 varð kröpp dýfa þegar fylgið fór niður í 11,7 prósent. Flokkurinn stökk upp í heil 24,7 prósent árið 2013 en seig niður í 10 til 12 prósent í síðustu tvennum þingkosningum. Wintris-málið og Miðflokkurinn koma þar mjög við sögu.

Eva H. Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir að í kosningunum 2009, eftir hrunið, hafi komið skarpt los á tengingu kjósenda við fjórflokkinn. Sá sem tapaði mestu á því sem mætti kalla tengslarof, hafi verið Sjálfstæðisflokkur sem átti langmesta kjarnafylgið. Afleiðingar þessa hafi svo birst enn frekar í kosningunum 2013.

Innt eftir skýringum á fyrrum vinsældum fjórflokksins svarar Eva að stundum sé talað um að flokkakerfið hafi frosið upp úr 1930. Eftir það hafi um langa hríð orðið litlar breytingar á pólitísku landslagi. Um 1990 hafi nýtt stöðugleikatímabil hafist sem hafi ekki skapað mikið rými fyrir nýja flokka. Fjölgun stjórnmálaflokka hin síðari ár sé í takti við þróun sem hafi orðið áður í nágrannalöndunum. Málefnasviðið sé orðið miklu flóknara. Áður hafi íslensk stjórnmál snúist mikið um félagshyggju og markaðshyggju. Minni áhersla hafi verið á alþjóðahyggju en nú. „Það hafa orðið til ný málefni svo sem umhverfismál og nýjar hugmyndir um framkvæmd lýðræðis. Málefnasviðið er því flóknara núna, sem opnar rými fyrir nýja flokka,“ segir Eva.