Úr norðan­verðu Ísa­fjarðar­djúpi ganga fimm firðir sem kallast Jökul­firðir og er Hest­eyrar­fjörður þeirra vestastur, Leiru­fjörður syðstur, Hrafns­fjörður austastur og síðan vita Lóna­fjörður og Veiði­leysu­fjörður í norður á milli Hest­eyrar- og Hrafns­fjarðar. Stærstur þessara fimm fjarða er hömrum girtur Veiði­leysu­fjörður, 8 km langur og 2 km breiður. Nafnið gefur til kynna að þarna hafi ekki verið feng­sæl fiski­mið en auk þess var bú­skapur erfiður, enda undir­lendi mjög tak­markað og vetrar­hörkur miklar. Þarna voru bátar gjarnan notaðir til sam­gangna, enda langt í næstu bæi land­leiðina og um há fjalla­skörð að fara. Á bænum Steig var þó búið fram til 1927 og má enn sjá rústir gamla bæjarins. Skammt frá, á nesinu milli Veiði­leysu- og Lóna­fjarðar, er mun stærra býli, Kvíar, þar sem enn stendur myndar­legt stein­hús sem gert hefur verið upp af ferða­þjónustu­aðilum á Ísa­firði. Þar er gisti­að­staða en flestir gista þó í tjaldi fyrir botni Veiði­leysu­fjarðar, nánar til­tekið við Mel­eyri þar sem um sex ára skeið var rekin norsk hval­stöð fram til ársins 1903.

Snæviþakin fjöll spegla sig í sléttum Veiðileysufirði á fallegum vordegi.
Mynd/Aðsend

Flestir koma í Veiði­leysu­fjörð til að hefja eða enda göngu­ferð með allt á bakinu um Horn­strandir, enda liggur fjörðurinn mið­svæðis og yfir há­sumarið boðið upp á á­ætlunar­ferðir frá Ísa­firði og Bolungar­vík. Þarna kemst fólk gangandi yfir í Horn­vík og er þá farið yfir rúm­lega 500 m hátt Hafnar­skarð. Þótt forn göngu­leiðin sé víða vel sjáan­leg og vörðuð er skyn­sam­legt að hafa með í för GPS-leið­sögu­tæki, enda þoku­gjarnt á Horn­ströndum. Efst úr skarðinu er frá­bært út­sýni yfir í Horn­vík en einnig aðra hluta Horn­stranda og Jökul­fjarða. Önnur forn göngu­leið liggur vestan Lón­horns um Hlöðu­víkur­skarð í Hlöðu­vík, og enn önnur frá Stein­holts­stöðum yfir í Hest­eyrar­fjörð. Loks má ganga frá Steig um Kví­ár­dal að Kvíum og þaðan á­fram í Lóna­fjörð, en botn hans er einn af­skekktasti staður á Ís­landi. Allar þessar göngu­leiðir eru frá­bærar fjalla­skíða­leiðir á vorin, enda ein­stakt að geta skíðað úr einum firði yfir í annan.

Í Veiði­leysu­firði eru mörg skemmti­leg ör­nefni eins og fjallið Tafla, býlið Steig sem áður var nefnt, Líka­klettur, þar sem sagan segir að 18 menn hafi orðið úti, og Marðar­eyri sem kennd er við Mörð, göldr­óttan bónda sem getið er í þjóð­sögum. Það er þó kyrrðin og ó­spillt náttúra sem eru aðals­merki Veiði­leysu­fjarðar, og erfitt að sjá fyrir sér að í firðinum hafi verið rekin verk­smiðja. Þarna á fisk­eldi heldur ekki heima, enda þótt gírug norsk fyrir­tæki á­sælist Veiði­leysu­fjörð og Jökul­firði, eyði­fjörð sem á­fram vill fá að standa undir nafni.

Horft yfir Hornvík frá Hafnarskarði en í fjarska sést í hluta Kálfatinda.
Mynd/Aðsend