Mánaðarlegt meðlag er í dag, 34.362 krónur, og alls greiða 8.615 einstaklingar á Íslandi þessa upphæð með börnum sínum nú um stundir. Langflestir meðlagsgreiðendur eru karlmenn eða um 93% prósent samkvæmt tölum Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá árinu 2018.

Börn sem greitt er meðlag með eru alls 11.703 talsins og er samanlögð heildarupphæð meðlagsgreiðslna um 400 milljónir króna á mánuði, sé miðað við september 2019. Þessar upplýsingar koma fram í skriflegu svari frá Braga R. Axelssyni, lögmanni Innheimtustofnunar, við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Á árinu 2018 var staðan sú að 53% meðlagsgreiðenda borguðu með einu barni, 28% með tveimur börnum og 12% með þremur börnum. Sá frjósamasti á skrá Innheimtustofnunar var meðlagsskyldur með 11 börnum. Ef einstaklingur er meðlagsskyldur ber honum að greiða meðlag með öllum börnum sínum undir 18 ára aldri en það er útbreiddur misskilningur að aðeins þurfi að greiða meðlag fyrir að hámarki þrjú börn.

Rúmlega tólf prósent þeirra sem greiða meðlag eru erlendir ríkisborgarar, alls 1.054 einstaklingar. Rúmlega helmingur þessara erlendu ríkisborgara er búsettur á Íslandi. Í ljósi þess að reglulega er auglýst eftir erlendum meðlagsskyldum foreldrum í Lögbirtingablaðinu segir Bragi að vanskil þessa hóps virðist hlutfallslega minni en heildarinnar. Þrátt fyrir að í mörgum tilvikum sé erfitt að innheimta þessar skuldir séu mörg dæmi þess að erlendir ríkisborgarar geri upp meðlagsskuldir sínar sem farið hafa í vanskil.

Eins og áður segir þá eru meðlagsgreiðslur yfirleitt ekki afskrifaðar og hlaðast því upp í kerfi Innheimtustofnunar. Undantekningar frá þessari reglu eru nokkrar, til dæmis þegar einstaklingar verða gjaldþrota eða ef greiðandinn kveður þessa jarðvist. Afskriftir vegna slíkra tilvika voru tæplega 250 milljónir árið 2019 en eins og áður segir eru uppsafnaðar ógreiddar meðlagsskuldir í gagnagrunni Innheimtustofnunar um 21 milljarður króna frá árinu 1972.