Alls 27 prósent fólks í Eflingu styðja uppsagnir starfsfólks skrifstofunnar 11. apríl síðastliðinn. 64 prósent eru óánægð með þær.
Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Prósent gerði.
Uppsagnirnar hafa valdið gríðarlegri ólgu innan verkalýðshreyfingarinnar.
Hefur ákvörðun Sólveigar Önnu Jónsdóttur, nýendurkjörins formanns, og stjórnar Eflingar, verið gagnrýnd af Drífu Snædal, forseta Alþýðusambandsins, Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, og fleirum.
Alls eru 67 prósent landsmanna óánægð með uppsagnirnar, þar af 55 prósent mjög óánægð. 17 prósent eru ánægð og þar af tæplega 10 prósent mjög ánægð. 16 prósent tóku ekki afstöðu.
Töluverður munur er á svörum eftir stjórnmálaskoðunum. Mestur er stuðningurinn innan raða Sósíalistaflokksins, 59 prósent, en Sólveig Anna hefur setið á lista flokksins í tvennum kosningum.
Meirihluti stuðningsfólks Flokks fólksins styður einnig uppsagnirnar, 52 prósent, og 38 prósent Miðflokksmanna, á meðan 54 prósent eru á móti.

Öllu minni stuðningur finnst í öðrum flokkum. 18 prósent Samfylkingarfólks styðja uppsagnirnar, 15 prósent Pírata, 10 prósent Vinstri grænna og 8 prósent Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna. Minnstur er stuðningurinn meðal stuðningsfólks Viðreisnar, aðeins tæp 4 prósent.
Nánast enginn munur er á svörum eftir kynjum en heldur meiri andstaða er á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, 71 prósent á móti 60. Eldra fólk er ánægðara en það yngra, á meðal 25 til 34 ára er hann aðeins 7 prósent en 30 hjá 65 ára og eldri.
23 prósent þeirra sem hafa undir 400 þúsund krónur í mánaðartekjur eru ánægð með uppsagnirnar en á bilinu 11 til 12 prósent þeirra sem hafa yfir 600 þúsund krónur. Sömu línur má sjá hjá þeim sem eru aðeins með grunnskólapróf og þeim sem hafa háskólapróf, en svör iðnmenntaðra eru blandaðri.
Þó að stuðningur Eflingarfólks sé aðeins 27 prósent, er það þó hærra en hjá öðrum stéttarfélögum. 15 prósent fólks í VR styðja uppsagnirnar og 14 prósent þeirra sem eru í öðrum félögum.
Könnunin var netkönnun, gerð 13. til 19. apríl. Úrtakið var 2.150 einstaklingar, 18 ára og eldri, og svarhlutfallið 50,3 prósent