Tæpur fjórðungur, 23 prósent, barna og ung­menna á aldrinum 9 til 18 ára hefur upp­lifað ein­elti á netinu, í símanum eða tölvu­leikjum síðustu tólf mánuði. Þá hafa 25 prósent nem­enda á sama aldri fengið ljótar at­huga­semdir í sinn garð á netinu, í tölvu­leik eða á sam­fé­lags­miðlum, 17 prósent hafa upp­lifað hótanir og 18 prósent úti­lokanir frá hópum á netinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjöl­miðla­nefndar og Mennta­vísinda­stofnunar um aug­lýsinga­læsi og upp­lifun barna og ung­menna á netinu sem gefin var út í dag.

„Niður­stöðurnar koma beint inn í um­ræðu í sam­fé­laginu í dag,“ segir Skúli Bragi Geir­dal verk­efnis­stjóri hjá Fjöl­miðla­nefnd og vísar í umræðu um einelti meðal ungmenna í dag.

„Það er á­huga­vert að sjá hversu al­gengt þetta er, hversu mörg börn verða fyrir þessu og svo hvernig þau eru að tala við hvort annað á netinu. Það talar inn í þá um­ræðu hvort að ein­elti er öðru­vísi í dag en áður,“ segir Skúli.

Einn af hverjum fjórum verið hótað eða upplifað útilokun

Um einn af hverjum fjórum strákum á ung­linga- eða fram­halds­skóla­stigi hefur sam­kvæmt skýrslunni fengið hótanir einu sinni eða oftar á netinu og svipað hlut­fall stelpna á sama aldri hefur upp­lifað úti­lokanir frá hópum á netinu.

Í skýrslunni kemur einnig fram að strákar eru lík­legri til þess að segjast hafa upp­lifað ein­elti en stelpur, en kynja­munurinn er mestur á mið­stigi (4.-7. bekk) þar sem 24 prósent stráka og 15 prósent stelpna hafa upp­lifað slíkt.

Stúlkur lík­legri til að hafa upp­lifað mynd­birtingar sem olli þeim leiða eða reittu þær til reiði

Stelpur eru lík­legri en strákar til að hafa upp­lifað mynd­birtingar af þeim sem olli þeim leiða eða reittu þær til reiði. Í grunn­skóla eru slíkar mynd­birtingar rúm­lega tvö­falt lík­legri á ung­linga­stigi, 8.-10. bekk (28%), en á mið­stigi, 4.-7. bekk (12%).

Fjórir af hverjum tíu for­eldrum barna í grunn­skóla biðja þau um leyfi áður en myndum af þeim er deilt

Stúlkuforeldrar líklegri til að deila myndum en strákaforeldrar

Um 80 prósent barna og ung­menn á aldrinum 9 til 18 ára segja for­eldra sína deila oft eða stundum myndum af sér á Insta­gram, Face­book eða Snapchat. Í skýrslunni kemur fram að for­eldrar stúlkna eru lík­legri til að deila myndum en for­eldrar stráka.

„For­eldrar eru kannski ekki að pæla í því að biðja um leyfi áður en þau pósta. En þessar myndir verða svo hluti af staf­ræna fót­spori barnanna okkar,“ segir Skúli.

Að­eins fjórir af hverjum tíu segja for­eldra sína hafa beðið um leyfi fyrir mynd­birtingunni en þegar börnin eru komin í fram­halds­skóla lækkar hlut­fallið í þrjá af hverjum tíu.

Um 17 prósent barna og ung­menna á aldrinum 9-18 ára eru ó­sátt við mynd­d­eilingar for­eldra sinna af þeim eða þykir þær vand­ræða­legar en hlut­fallið er hæst meðal stúlkna á efsta stigi grunn­skóla (8.-10. bekk).

Annað sem hann segir á­huga­vert í skýrslunni er að það voru lagðir fyrir börnin Insta­gram færslur og þau spurð hvort um kostað efni væri að ræða eða ekki.

„Þar sjáum við hvað mið­stigið á erfitt með að spotta kostaða pósta,“ segir hann.

Skýrslan er sjöundi hluti af sjö og byggir á niður­stöðum könnunarinnar „Börn og net­miðlar“ sem Mennta­vísinda­stofnun fram­kvæmdi fyrir Fjöl­miðla­nefnd í 23 grunn­skólum og 23 fram­halds­skólum meðal grunn- og fram­halds­skóla­nema á aldrinum 9-18 ára . Er þetta í fyrsta sinn sem Fjöl­miðla­nefnd, í sam­starfi við Mennta­vísinda­stofnun, birtir niður­stöður svo um­fangs­mikillar könnunar. Fyrir­hugað er að gera sam­bæri­lega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðla­notkun og færni barna og ung­menna þannig að hægt verði að bera saman niður­stöðurnar og hvernig notkun þróast.