Tæpur fjórðungur, 23 prósent, barna og ungmenna á aldrinum 9 til 18 ára hefur upplifað einelti á netinu, í símanum eða tölvuleikjum síðustu tólf mánuði. Þá hafa 25 prósent nemenda á sama aldri fengið ljótar athugasemdir í sinn garð á netinu, í tölvuleik eða á samfélagsmiðlum, 17 prósent hafa upplifað hótanir og 18 prósent útilokanir frá hópum á netinu.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um auglýsingalæsi og upplifun barna og ungmenna á netinu sem gefin var út í dag.
„Niðurstöðurnar koma beint inn í umræðu í samfélaginu í dag,“ segir Skúli Bragi Geirdal verkefnisstjóri hjá Fjölmiðlanefnd og vísar í umræðu um einelti meðal ungmenna í dag.
„Það er áhugavert að sjá hversu algengt þetta er, hversu mörg börn verða fyrir þessu og svo hvernig þau eru að tala við hvort annað á netinu. Það talar inn í þá umræðu hvort að einelti er öðruvísi í dag en áður,“ segir Skúli.
Einn af hverjum fjórum verið hótað eða upplifað útilokun
Um einn af hverjum fjórum strákum á unglinga- eða framhaldsskólastigi hefur samkvæmt skýrslunni fengið hótanir einu sinni eða oftar á netinu og svipað hlutfall stelpna á sama aldri hefur upplifað útilokanir frá hópum á netinu.
Í skýrslunni kemur einnig fram að strákar eru líklegri til þess að segjast hafa upplifað einelti en stelpur, en kynjamunurinn er mestur á miðstigi (4.-7. bekk) þar sem 24 prósent stráka og 15 prósent stelpna hafa upplifað slíkt.
Stúlkur líklegri til að hafa upplifað myndbirtingar sem olli þeim leiða eða reittu þær til reiði
Stelpur eru líklegri en strákar til að hafa upplifað myndbirtingar af þeim sem olli þeim leiða eða reittu þær til reiði. Í grunnskóla eru slíkar myndbirtingar rúmlega tvöfalt líklegri á unglingastigi, 8.-10. bekk (28%), en á miðstigi, 4.-7. bekk (12%).
Fjórir af hverjum tíu foreldrum barna í grunnskóla biðja þau um leyfi áður en myndum af þeim er deilt
Stúlkuforeldrar líklegri til að deila myndum en strákaforeldrar
Um 80 prósent barna og ungmenn á aldrinum 9 til 18 ára segja foreldra sína deila oft eða stundum myndum af sér á Instagram, Facebook eða Snapchat. Í skýrslunni kemur fram að foreldrar stúlkna eru líklegri til að deila myndum en foreldrar stráka.
„Foreldrar eru kannski ekki að pæla í því að biðja um leyfi áður en þau pósta. En þessar myndir verða svo hluti af stafræna fótspori barnanna okkar,“ segir Skúli.
Aðeins fjórir af hverjum tíu segja foreldra sína hafa beðið um leyfi fyrir myndbirtingunni en þegar börnin eru komin í framhaldsskóla lækkar hlutfallið í þrjá af hverjum tíu.
Um 17 prósent barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára eru ósátt við mynddeilingar foreldra sinna af þeim eða þykir þær vandræðalegar en hlutfallið er hæst meðal stúlkna á efsta stigi grunnskóla (8.-10. bekk).
Annað sem hann segir áhugavert í skýrslunni er að það voru lagðir fyrir börnin Instagram færslur og þau spurð hvort um kostað efni væri að ræða eða ekki.
„Þar sjáum við hvað miðstigið á erfitt með að spotta kostaða pósta,“ segir hann.
Skýrslan er sjöundi hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára . Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður svo umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.