Alls segir um fjórðungur aldraðra, eða 24 prósent, vilja að hægt sé að velja um að fá vegan mat og 41 prósent vill að hægt sé að velja grænmetisrétt í heimsendum mat frá Reykjavíkurborg. Það sýna niður­stöður við­horfs­könnunar á vegum vel­ferðar­sviðs Reykja­víkur­borgar sem fram­kvæmd var í desember á síðasta ári.

Vel­ferðar­svið Reykja­víkur­borgar rekur fram­leiðslu­eld­hús á Lindar­götu sem fram­leiðir mat sem sendur er til fólks í heima­húsum og fyrir fé­lags­mið­stöðvar sem Reykja­víkur­borg rekur fyrir full­orðna. Öldunga­ráð vel­ferðar­sviðs óskaði eftir að matur í fram­leiðslu­eld­húsinu að Lindar­götu yrði tekinn út. Sam­hliða því var á­kveðið að endur­taka notanda­könnun frá árinu 2014.

Fólk vill fjölbreyttari matseðil.
Mynd/Reykjavíkurborg

Maturinn oftast góður og hollur

Spurt var hvort tíma­setning heim­sendingar hentaði, hvað not­endum þætti um kostnaðinn, skammta­stærð, hvernig maturinn bragðast, hvort þeim þyki maturinn hollur, girni­legur og hvort þau myndu mæla með honum.

Al­mennt voru góð við­brögð við þessum spurningum þar sem flestum þótti maturinn oftast góður, hollur, gæðin mikil eða frekar mikil. Þá þótti lang­flestum stærðirnar mátu­legar og kostnaðurinn ekki of mikill.

Mikill fjöldi aldraðra vill oftar vegan eða grænmetisrétt í heimsendan mat.

Vilja oftar ávexti og hrátt grænmeti

Þá voru þau spurð hvort það þyrfti að auka hlut­fall ein­hverra hrá­efna. 40 prósent sögðust vilja meira hrátt græn­meti, 23 prósent sögðust vilja meira soðið græn­meti og 57 prósent sögðust vilja meiri á­vexti.

Þá var spurt um réttina sjálfa og hvort þeir gætu verið annars eðlis, svo sem vegan, ind­verskir eða hvort það væri val um tvo rétti.

24 prósent sögðust vilja vegan og 41 prósent sögðust vilja að boðið væri upp á græn­metis­rétti. Þá sagði um helmingur að þau vildu að það væri val um tvo rétti og svo sagði 57 prósent að þau myndu vilja að það væri á boð­stólum fjöl­þjóð­legir réttir, svo sem ind­verskt, ítalskt eða kín­verskt.

Matseðillinn sem tekinn var út í könnuninni.
Mynd/Reykjavíkurborg

Nota minna af kartöflum

Einnig var gerð út­tekt á næringar­gildi matsins sem er í boði þar sem farið var yfir mat­seðil einnar viku og bæði farið yfir skammta­stærðir og upp­skriftir. Næringar­gildi var slegið inn í for­rit sem reiknar hlut­fall fitu, trefja, próteins, salts meðal annars.

Niður­stöðurnar sýndu að mál­tíðirnar gefa að meðal­tali um 800 kalóríur á dag sem er talið á­sættan­legt ef miðað er við um 1/3 af dag­legri þörf sem er um 2400 til 2500 kalóríur á dag.

„Hlut­fall orku­efnanna er nokkuð gott miðað við að um há­degis­mat er að ræða. Fita gefur um 50% af orkunni (ætti að gefa 40-45%). Prótein gefur 23% af orkunni (ætti að gefa 18-20%). Kol­vetni gefur um 30% af orkunni (ætti að gefa um 45-50%). Búast má við að ráð­lögð hlut­föll náist vel ef morgun­verður, kaffi og kvöld­verður væru einnig tekin með í út­reikningana,“ segir í niður­stöðum út­tektarinnar.

Þá segir að hlut­fall mettaðrar fitu sé hátt, það sé um 20 prósent en ætti að vera í kringum 10 prósent. Það sé rakið til notkunar á smjör og rjóma og stórra skammta af kjöti. Þá séu trefjar um sex grömm á mál­tíð en ættu að vera á milli átta og tíu.

Lagðar eru fram á­bendingar þar sem segir að feitur fiskur sé mikil­vægur og lagt er til að nota minna af kar­töflum en kínóa, bygg og hýðis­hrís­grjón í stað þeirra. Þá er stungið upp á að elda oftar matar­mikla græn­metis­rétti með linsu­baunum, öðrum baunum og rótar­græn­meti.

Hægt er að kynna sér niður­stöðurnar betur hér og hér.