Háskóla Íslands bárust nærri 5.600 umsóknir um grunnnám fyrir skólaárið 2019-2020 og nemur fjölgun umsókna milli ára tæplega 13 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá háskólanum en þar segir að umsóknarfjöldinn sé umtalsvert meiri en nemur fjölda þeirra sem lýkur stúdentsprófi í ár.

Þá reyndist heildarfjöldi umsókna um grunn- og framhaldsnám nærri níu þúsund að þessu sinni en þar af eru um 1.200 umsóknir frá erlendum nemendum. Aðsókn í kennaranám eykst töluvert milli ára og sama má segja um umsóknir um nám í hjúkrunarfræði, sálfræði, tilteknar verkfræðigreinar og félagsráðgjöf.

Nær helmingi fleiri sæka um grunnskólakennaranám

Samanlagður fjöldi umsókna um grunnnám nú í vor var 5.570 sem eru rétt um 630 fleiri umsóknir en í fyrra. Sé horft tvö ár aftur í tímann nemur fjölgun umsókna um 25 prósent.

Ákveðnar námsleiðir skera sig úr hvað aukningu í umsóknum varðar. Má þar nefna að umsóknum um grunnskólakennaranám fjölgaði um 45 prósent milli ára. Sérstakt þjóðarátak hefur staðið yfir til að laða fólk í kennaranám hérlendis.

Í grunnnám í leikskólakennarafræði er fjöldi umsókna svipaður og í fyrra en rétt er að hafa í huga að frá 2016-2018 fjölgaði umsóknum í leikskólakennaranám um 86 prósent. Athygli vekur einnig að umsóknum í rafmagns- og tölvuverkfræði fjölgar um 50 prósent og eru þær rúmlega 70. Þá stefna 273 á nám í hjúkrunarfræði og fjölgar umsóknum um 55 prósent milli ára.

Stytting framhaldsskólans eigi þátt í fjölgun

Samanlagður fjöldi umsókna í grunnnámi við Háskóla Íslands er töluvert meiri en sem nemur fjölda þeirra sem ljúka stúdentsprófi í ár en þess má geta að tveir skólar, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn á Akureyri, brautskrá nú í vor tvo árganga stúdenta í tengslum við styttingu námstíma til stúdentsprófs.

„Fjölgun umsókna milli ára er í takt við áætlanir Háskólans vegna styttingarinnar og þrátt fyrir að fjölguninni fylgi töluverðar áskoranir fyrir starfsfólk og innviði skólans mun hann áfram leggja mikla áherslu á gæði kennslu og afbragðsþjónustu við nemendur,“ segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.