Verulega margir skjálftar hafa orðið á Reykjanesi eftir hádegi en nú fyrir skömmu kom skjálfti sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn náttúruvársérfræðinga Veðurstofu Íslands varð skjálftinn klukkan 15:10 og var 4,2 að stærð.

Þetta er því fjórði skjálftinn sem mælist yfir 4 að stærð í dag. Stærsti skjálftinn í dag kom klukkan 12:06 og var 4,4 að stærð, klukkan 12:24 varð skjálfti af stærðinni 4,1, og klukkan 13:51 varð skjálfti af stærðinni 4,1.

Frá því í morgun hafa á annan tug skjálfta verið yfir 3 að stærð, að því er kemur fram í tilkynningu um málið. Skjálftarnir í dag hafa fundist víðsvegar á Suðvesturlandi, Hellu og í Borgarfirði.

Ekkert lát virðist því vera á skjálftahrinunni sem hófst á Reykjanesi síðastliðinn miðvikudag en stærsti skjálftinn í hrinunni var á miðvikudagsmorgun og var 5,7 að stærð. Sérfræðingar Veðurstofu Íslands fylgjast nú vel með stöðunni en enn sem komið er eru engar vísbendingar um gosóróa.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Gríðarlega margir skjálftar hafa mælst frá því á miðvikudaginn.
Skjáskot/Veðurstofa Íslands