Fjórði hver Svíi segist ekki vilja bólusetningu gegn Covid-19, en flestir eru mótfallnir því vegna ótta við aukaverkanir. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var fyrir sænska ríkisútvarpið SVT af greiningarfyrirtækinu Novus.

„Rannsóknin sýnir að stuðningur við bólusetningu er nokkuð mikill, en það er ljóst að svínaflensan er í fersku minni fólks. Aukaverkanirnar sem sumir urðu fyrir þá valda mörgum áhyggjum," segir Torbjörn Sjöström, forstjóri Novus.

Rannsóknin sýnir jafnframt að fleiri Svíar eru jákvæðir í garð bólusetningar í dag í samanburði við samskonar könnum sem gerð var í lok sumars. Hlutfall þeirra sem segist ekki vilja láta bólusetja sig minnkar frá því sumar. Í ágúst sögðust 37 prósent ekki vilja bólusetja sig en 26 prósent svöruðu neitandi í nýju könnuninni.

„Mögulega eru fleiri sem segjast vilja bólusetja sig núna en í sumar þar sem að dánartíðnin hefur aukist aftur og að fólk er einfaldlega hræddara við sjúkdóminn en bóluefnið," segir Torbjörn Sjöström. Covid-19 var þriðja algengasta dánarorsökin í Svíþjóð á fyrstu sex mánuðum ársins.

Karlar og aldraðir hafa einna helst breytt um skoðun frá því í sumar.

„Á sama tíma er rétt að geta þess að næstum þriðji hver Svíi er hikandi og hefur ekki ákveðið hvort þeir vilji láta bólusetja sig," segir Sjöström.

Muna eftir svínaflensunni

Af þeim fjórðungi sem svaraði nei, að þeir vilji ekki láta bólusetja sig, hafa 87 prósent áhyggjur af aukaverkunum bóluefnisins. Margir muna enn eftir aukaverkunum af völdum Pandemrix, svínaflensubóluefnisins, árið 2009. Þá voru 60 prósent Svía bólusettir.

Aðeins tvö prósent sænsku þjóðarinnar telur að bóluefni séu almennt slæm og vilji því ekki láta bólusetja sig.

Svíþjóð er eitt af þeim löndum í Evrópu þar sem flestir hafa smitast og látið lífið af völdum Covid-19. Alls hafa um 208 þúsund manns smitast af veirunni og 6,400 látið lífið.