Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður og þingmaður Miðflokksins, vill að Alþingi biðji Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, afsökunar á Landsdómsmálinu.

Tveir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Sigmundur Davíð, Bergþór Ólason, Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, reyna nú í fjórða sinn að fá Alþingi til að biðjast afsökunar á málinu.

Þeir hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi taki til baka fyrri þingsályktunartillöguna sem var samþykkt árið 2010, um málshöfðun gegn Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Matthíesen og Björgvini G. Sigurðssyni.

Telja þingmennirnir að málshöfðunin hafi verið óréttmæt og fyrrverandi ráðherrarnir eigi skilið afsökunarbeiðni.

Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar sem lagði fram tillögu á sínum tíma um ákæra aðeins Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu og Árna Mathiesen, en ekki Björgvin G. Sigurðsson, hefur beðist formlega afsökunar á sínum hlut í Landsdómsmálinu. Alþingi greiddi atkvæði um kærur ráðherranna og var niðurstaðan sú að Geir H. Haarde var dreginn fyrir Landsdóm, en ekki hin þrjú.

Alþingi gegn Geir H. Haarede var fyrsta og eina málið sem var rekið fyrir Landsdómi á Íslandi en þá var Geir sakaður um vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins um haustið 2008. Geir var sakfelldur í apríl 2012 í þeim ákærulið sem sneri að stjórnarskrárbundinni skyldu forsætisráðherra til þess að halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg málefni en sýknu að öðru leyti.