Þökk sé hinum nýja MQB-A0 smábílaundirvagni, sem einnig er undir nýjum Audi A1 og Volkswagen Polo, er ný Fabia mun rúmbetri en fyrirrennarinn. Bíllinn er væntanlegur á markað snemma á næsta ári og ári seinna mun hann einnig koma í langbaksútgáfu. Fabia er 111 mm lengri en áður og 48 mm breiðari. Hjólhafið fer úr 2.470 í 2.564 mm sem þýðir meira pláss í aftursætum. Farangursrýmið stækkar svo um 50 lítra og fer í 380 lítra sem er best í flokknum.

Mælaborð með litaskjá, leiðsögukerfi og raddstýringu eru atriði sem sjást ekki oft í smábílum.

Bíllinn er nokkuð breyttur að framan með mjóum dagljósum og endurhönnuðum þokuljósum og stuðara. Afturendanum svipar mikið til þeirra breytinga sem hafa orðið á Skoda-fjölskyldunni að undanförnu. Bíllinn hefur einnig mun minni loftmótstöðu sem fer úr 0,32 Cd í 0,28 Cd. Fleiri vélar verða í boði, allar þeirra bensínvélar sem uppfylla Euro 6 mengunarstaðalinn. Þær minnstu eru þriggja strokka eins lítra vélar sem skila 64-79 hestöflum. Eins lítra TSI-vél með forþjöppu skilar 108 hestöflum og verður fáanleg með DSG-sjálfskiptingu. Stærsta vélin verður svo fjögurra strokka 1,5 lítra vél sem er 148 hestöfl og hröðunin verður 7,9 sekúndur í hundraðið. Engar vRSútgáfur eru þó í kortunum.

Mun meira pláss verður fyrir aftursætisfarþegana enda bíllinn lengri og breiðari en áður.

Bíllinn er alveg endurhannaður innandyra og að sögn Skoda með þægindi sem prýða frekar stærri bíla. Endurhannað snjallstýri ásamt díóðulýsingu er dæmi um slíkt. Búið er að endurhanna loftf læði með nýjum lofttúðum og mýkri efni í mælaborði. Nýr 9 tommu upplýsingaskjár er í betur búnum útgáfum en hann er búinn Wi-Fi, leiðsögukerfi og raddstýringu svo eitthvað sé nefnt. Hægt verður svo að panta bílinn með 10,25 tommu litaskjá í mælaborði. Bíllinn mun ef laust hækka aðeins í verði með þessum breytingum og því er ekki ljóst hvort að hann fari í sölu hérlendis ennþá.