Audi kynnti nýverið fjórðu kynslóð sprettharðasta station-bíl heims og er hinn nýi Audi RS6 áfram sami úlfurinn i sauðagærunni. Hann er nú vopnaður einum 592 hestöflum og hefur grætt 39 hestöfl á milli kynslóða. Þökk sé stærri og háþrýstari forþjöppu en V8 vélin í bílnum er áfram 4,0 lítra. Audi RS6 er nú eina útfærslan í A6/A7 fjölskyldunni sem er með V8 bensínvél, en S6 og S7 eru báðir búnir að fá V6 dísilvél með forþjöppum. Með öll þessi hestöfl tiltæk er Audi RS6 aðeins 3,6 sekúndur í hundraðið, 0,3 sekúndum sneggri en forverinn. Það er alls ekki slæmt fyrir langbak sem ætlaður er til að flytja mikið af farþegum og farangri og hvað þá fyrir bíl sem vegur 2,1 tonn.

Slekkur á 4 strokkum

V8 vélin í bílnum slekkur á 4 strokkum sínum undir litlu álagi og sparar með því mikið eldsneyti, en þessi tækni var reyndar líka í 3. kynslóð bílsins öfluga. Nýjung er þó fólgin í 48 volta „mild-hybrid“ kerfinu sem finna má orðið í svo mörgum bílum Volkswagen Group um þessar mundir og er það enn til að minnka eyðslu bílsins. Hann ætti því að verða bara nokkuð sparneytinn, uns ökumaður ákveður að nýta sér öll hestöflin. Audi RS6 er á loftpúðafjöðrum og getur hún hert fjöðrun bílsins um 50%, nokkru meira en áður. Eins og með hvern annan notadrjúgan langbakinn má fá krók aftaná RS6. Quattro fjórhjóladrif bílsins er stillt að jafnaði tiol að senda 60% aflsins í framhjólin og 40% í afturhjólin, en getur þó undir álagi sent allt að 70% í framhjólin og 85% í afturhjólin. Bíllinn er auk þess fjórhjólastýrður og það fyrsta sinni í tilfelli RS6.