Áframhaldandi óvissa er um samsetningu þingmannahópsins eftir að landskjörnefnd úrskurðaði að ekki væri hægt að staðfesta að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi í Norðvesturkjördæmi. Landskjörstjórn mun á fundi sínum á morgun úthluta þingsætum. Nefndin hefur þó ekki síðasta orðið um hvaða einstaklingar enda sem þingmenn. Sú ákvörðun verður í höndum Alþingis.

Flestir telja að þingið hafi fjóra kosti:

Leið 1 er að úrslit fyrri talningarinnar í Norðvesturkjördæmi standi. Gallinn við þá leið, segja þingmenn sem blaðið hefur rætt við, er að með því gæti ákvörðun þingsins orðið að persónukjöri með því að velja þá fimm þingmenn sem voru inni á þingi áður en endurtalið var.

Leið 2 væri að leggja til að seinni kosningin gilti. Aftur yrði sá galli á gjöf Njarðar að þingið myndi með slíkri ákvörðun stuðla að því að fimm þingmenn í stað annarra fimm kæmust í þingmannahópinn.

Leið 3 er að kosið yrði upp á nýtt í Norðvesturkjördæmi. Þá gæti skapast sú hætta að kjósendur myndu verja atkvæði sínu strategískt, kysu til dæmis ekki flokka sem þeir vita að myndu aldrei ná þingmanni inn. Uppkosning gæti orðið lýðræðislega bjöguð.

Leið 4 er að Alþingi ákveði að blása til nýrra kosninga fyrir allt landið. Sá kostur er af flestum þingmönnum talinn ólíklegastur. Hætta er sögð á að endurteknar kosningar gætu veikt trú á lýðræðið og að traust til Alþingis gæti bjagast á ný.

Helga Vala Helgadóttir, sem sat í kjörbréfanefnd fyrir Samfylkinguna síðasta kjörtímabil, segir að leiðir 1 og 2 hafi ekki áhrif á heildartölur, raski ekki þeim fjölda þingmanna sem hver flokkur fékk í kosningunum. Að láta úrslit standa, hvort sem lagt verði til að fyrri talning eða síðari talning gildi hafi aftur á móti áhrif á tíu frambjóðendur, þar sem helmingur fái framgang en hinn helmingurinn ekki. Leiðir 3 og 4 kalli á meiri óvissu þar sem þær gætu breytt úrslitum kosninga.

„Almennt séð er þessi staða ofsalega vond. Hún er vond fyrir lýðræðið og hún er nánast óbærileg fyrir þessa tíu einstaklinga sem vita ekki hvort þeir eru inni eða úti,“ segir Helga Vala.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat í kjörbréfanefnd síðasta kjörtímabil segir: „Mér finnst þetta mál mjög sorglegt en við megum ekki heldur blása ástandið of mikið upp. Hitt er alveg ljóst að lýðræðislegu ferli hefur verið raskað með þessari uppákomu.“