„Myndböndin og myndirnar segja auðvitað smá en ekki alla söguna því ófærðin var gríðarleg. Þegar menn voru að vesenast í henni þá var auðvitað enginn að smella af,“ segir Þorsteinn Ægir Egilsson, formaður björgunarsveitarinnar Hafliða á Þórshöfn.
Fréttir af björgunarafreki sveitarinnar um helgina þar sem sjúklingi var komið frá Þórshöfn yfir Hófaskarð áleiðis til Akureyrar í ófærð og óveðri vöktu mikla athygli.
Þorsteinn segir heimamenn stundum kalla skarðið Skaflaskarð. Í ákveðnum áttum og veðrum skefur svo mikið í það svo það lokast.
„Staðsetningin á veginum er ekkert til að hrópa húrra fyrir,“ segir Þorsteinn og vekur athygli á að SAS-arar, eða snillingar að sunnan eins og heimamenn kalla þá, hafi haft merkilega mikla skoðun á staðsetningu vegarins.
„Það var ekki hlustað á heimamenn sem höfðu varað við þessu. Heimamenn sem þekkja svæðið eins og lófann á sér. Eins og við erum nú ánægðir með þessa leið þegar hún er fær getur leiðin verið mikill farartálmi á veturna.“
Útkallið kom um hálf tólf á laugardag og var sjúklingurinn kominn um borð í sjúkrabíl frá Húsavík fjórum tímum síðar. Þorsteinn segir vegalengdina 30 til 40 kílómetra.
„Sjúklingurinn var svo kominn á sjúkrahús á Akureyri um áttaleytið um kvöldið. Hann er að braggast og þetta endaði vel, sem gefur þessu gildi.“

Þorsteinn segir hundrað manns vera í sveitinni og fimmtíu á útkallslista. „Þegar útkall kemur með svona hætti og þessum forgangi er samtakamátturinn, liðsheildin og samvinnan milli aðila mjög mikil. Þarna komu saman Vegagerðin, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitin, þeir sem moka veginn og fleiri. Menn standa upp frá matarborðinu, fara í gallana og labba út.“
Í húsakynnum björgunarsveitarinnar sátu svo menn og miðluðu upplýsingum til þeirra sem fóru á heiðina. Sveitin er stórhuga til næstu ára og stefnt er að því að byggja nýja 350 fermetra aðstöðu.
„Það er mjög metnaðarfullt verkefni í gangi sem kostar peninga og vinnu,“ segir Þorsteinn. Sveitin sé á þremur stöðum í dag.
„Á einum stað erum við í 40 feta gámi og á öðrum erum við í húsi sem er til niðurrifs á aðalskipulagi. Það er ekki mikil framtíð.“
Þorsteinn segir ekki aðeins fjölskyldur sveitarmanna vera liðlegar. Vinnuveitendur séu það líka.
„Fólk er auðvitað að gefa sína vinnu og margir vinnuveitendur hér á svæðinu taka fólk ekki af launaskrá þegar það sinnir útköllum. Fyrir það erum við þakklát,“ segir formaðurinn.