Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að takast þurfi á við þann raunveruleika sem fylgi fjórðu iðnbyltingunni svonefndu með tilkomu samfélagsmiðla og síaukinni tækni. Hún hefur ákveðið að láta vinna greiningu á fjórðu iðnbyltingunni og þeim áskorunum sem henni fylgja.

„Við vitum að þessi tæknibylting á eftir að breyta atvinnuháttum, vinnumarkaði, menntun og samfélaginu; við vitum líka að hún á eftir að breyta okkur sjálfum og upplifun okkar á veruleikanum,“ sagði Katrín í stefnuræðu sinni á Alþingi í dag.

Óvenju mörg drukknað vegna símanotkunar foreldra

Hún vísaði meðal annars til þess að í þýskum fjölmiðlum hafi verið fréttir af því að óvenju mörg börn hafi drukknað þar í landi í ár vegna þess að foreldrar þeirra hafi verið of uppteknir í símanum. Fólk þurfi að hafa þor til að horfast í augu við þennan nýja veruleika og nýta næstu skref í þróun, mönnunum til gæfu. 

„Samfélagið hefur breyst, upplýsingastreymi er með allt öðrum hætti og samfélagsmiðlar hafa breytt stjórnmálaumræðu með róttækum hætti. Við sem munum þá tíð þegar mestu skipti að komast í kvöldfréttirnar með það sem sagt var um morguninn, finnst þetta vera bylting þar sem fréttir morgunsins eru oft algjörlega gleymdar um kvöldið,“ sagði Katrín.

Stefnan sett fram í 280 orðum á Twitter

Katrín nefndi einnig notkun Donalds Trump Bandaríkjaforseta á samfélagsmiðlum.

„Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði alþjóðasamskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á Twitter. Eins og við þekkjum úr sögunni þá geta slík umskipti breytt miklu um valdajafnvægið í samfélaginu.“

Þannig sé mikilvægt að Íslendingar séu gerendur en ekki þiggjendur og nýti tækifærin, skapi aukin verðmæti og nýti þau til að byggja upp betra samfélag. Á sama tíma verði þeir að vera meðvitaðir um mennskuna og gæti að henni í þessari hröðu þróun.

„Vegna alls þessa ég ákveðið að láta vinna greiningu á áskorunum vegna Fjórðu iðnbyltingarinnar. Sú greining verður á breiðum grunni og unnið með niðurstöður hennar hjá Vísinda- og tækniráði, Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, með aðilum vinnumarkaðarins og í nýrri framtíðarnefnd Alþingis,“ sagði Katrín.