Félagsstofnun Stúdenta hefur tilkynnt fjölskyldum sem búa í Vetrargörðum við Eggertsgötu 6-8 að þær hafi mánaðarfrest til að flytja út. Ástæðan er sú að FS er að fara í framkvæmdir vegna viðhalds og viðgerða sem munu taka 8 til 12 mánuði.
Ekki veittur leiguafsláttur
Íbúum verður úthlutað nýju húsnæði en FS segir ekki hægt að bjóða öllum húsnæði af sömu stærð og herbergjafjölda. Sumir neyðast til að flytja í dýrari íbúðir og þurfa að greiða uppsetta leigu í þeim íbúðum. „Ekki verður veittur leiguafsláttur vegna flutninga eða framkvæmda,“ segir í tölvupósti sem barst íbúum.
Vetrargarður er fjölskylduhúsnæði Stúdentagarða en þar búa fjölmargir foreldrar í námi með börn í leikskólum og grunnskólum. Allir íbúar eru mótfallnir þessum aðgerðum og eru margir í losti yfir þessum stutta fyrirvara.
„Enginn er sáttur við þetta og mér finnst það hreinlega dónalegt.“
Þarf að flytja í miðju lokaverkefni
Mánaðarfyrirvari er alls ekki nóg fyrir námsmenn með börn. Einn íbúi sem Fréttablaðið ræddi er móðir sem er á sinni lokaönn. Hún er að skrifa Bakkalár-ritgerð og er með barn í grunnskóla í nágrenninu.
„Ég lýk námi í júní en nú þarf ég að flytja eftir fjórar vikur sirka og flytja svo aftur út kannski fjórum mánuðum síðar þegar ég klára námið. Ég á níu ára strák og allt dótið okkar tekur mikið pláss. Ég veit ekki hvað ég á að gera ef ég fæ pínulitla íbúð.“
Segist hún upplifa mikinn kvíða og stress við tilhugsunina að þurfa að flytja á meðan hún reynir að sinna lokaverkefninu sínu. Þar að auki mun hún ekki geta flutt í nýuppgerða íbúð þar sem hún lýkur námi á þessari önn.
„Sonur minn er í skóla hérna í nágrenninu og hann leikur við krakkana í húsinu. Ef ég þarf að flytja í annað hverfi þá skapast auka vesen við að skutla. Þetta er mikil röskun fyrir hann.“

Segir hún aðra foreldra með börn í leikskólanum á svæðinu og ekki eiga allir bíl sem búa þarna. Eins er staðan erfið fyrir námsmenn í kórónaveirufaraldrinum sem upplifa bæði mikinn kvíða og búa við slæma fjárhagsstöðu.
„Enginn er sáttur við þetta og mér finnst það hreinlega dónalegt að bjóða ekki einu sinni upp á fría leigu eða flutningsgjöld. Allir íbúarnir eiga börn. Þessi tímasetning er algjörlega út í hött.“