„Eina vitið í dag er að fara út fyrir borgina og fá meira fyrir peninginn,“ segir Tinna Björk Kristinsdóttir, einnig þekkt sem samfélagsmiðlastjarnan TinnaBK, en hún er ein af fjölmörgum sem hafa flúið höfuðborgina. Hún og unnusti hennar, Ingólfur Grétarsson, keyptu sér nýlega eign í Hveragerði. Þar fá tvö börn þeirra sín eigin herbergi og sá stutti komst inn á leikskóla á skömmum tíma. Í borginni voru þau fjögur í einu svefnherbergi og sá stutti var kominn á biðlista í leikskóla. Saga þeirra virðist vera samhljóða margra annarra.

Alls var 366 samningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í júní og hafa þeir aðeins einu sinni verið færri frá árinu 2012, samkvæmt frétt frá Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun. Það var í apríl síðastliðnum. Í sama mánuði í fyrra var 481 samningi þinglýst á höfuðborgarsvæðinu.

Alls mældist 31 prósents samdráttur á milli ára á öðrum ársfjórðungi á höfuðborgarsvæðinu, en úti á landi er blómlegt að gera hjá fasteignasölum. Samkvæmt Viðskiptablaðinu var fleiri kaupsamningum þinglýst á Akureyri, Akranesi og á Árborgarsvæðinu á öðrum ársfjórðungi í ár miðað við sama tíma í fyrra. Mest var aukningin á Akranesi, þar sem 57 prósenta fleiri kaupsamningum var þinglýst, á Akureyri var aukningin 18 prósent og 12 prósent á Árborgarsvæðinu.

Ragnheiður Rún Gísladóttir, fasteignasali hjá Fasteignasölu Vesturlands, segist finna fyrir áhuga fólks úr borginni á að flytja til Akraness. Fjarvinna hafi kennt fólki að það geti búið hvar sem er. „Það er búið að vera svolítið um að vera undanfarið. Mér finnst eins og það sé aftur að koma áhugi aðkomufólks á að flytja til Akraness, fólks sem hefur enga tengingu við staðinn,“ segir hún. Hún bætir við að ungt fjölskyldufólk sé mikið að skoða og velta fyrir sér möguleikunum. „Það er dýrt í Reykjavík og stutt að keyra hingað. Margir eyða hvort sem er klukkutíma í umferðinni til og frá vinnu.“

Stutt er síðan tvær stórar blokkir fylltust af fólki á Akranesi og því nóg af húsnæði til í bænum af öllum stærðum og gerðum. „Það eru margir að spá í Reykjanesi og fara Reykjanesbrautina, Árborgarsvæðið og keyra Hellisheiði eða Akranes og fara Kollafjörð.

Hér á Akranesi er eitt íþróttafélag með ótrúlegan fjölda greina fyrir krakka að stunda. Sundlaugin og sjórinn nánast í göngufæri og leikskólar eru ekki yfirfullir. Það eru ekkert margir bæir á Íslandi sem geta boðið allt sem hér er í boði,“ segir hún í sölugírnum.