Ekkja Johns Snorra, Lína Móey Bjarnadóttir, segir ekki rétt að hún hafi beðið norsku fjallgöngukonuna Kristinu Harila að klippa á taugina sem lík hans hangir í á fjallinu K2 í Pakistan líkt og norska vefritið kk.no hefur eftir Harila og mbl.is greindi frá í kjölfarið.

„Mig langar að æla yfir því hvað fólk er sjúkt þegar kemur að athygli. Ég hef aldrei talað við þessa konu eða send önnur eins skilaboð!“ segir Lína Móey í færslu á Facebook vegna umfjöllunarinnar en mbl.is hefur nú leiðrétt sína frétt að beiðni Línu Móeyjar.

Í frétt mbl.is var upphaflega greint frá því að norsku fjallgöngukonunni Kristinu Harila hafi borist beiðni frá Línu Móey, ekkju Johns Snorra, um að klippa á taugina sem lík Johns Snorra hangir í á fjallinu K2 í Pakistan. Því hefur nú verið breytt í, „íslensk kona hafi sett sig í samband við hana.“

Kristin stefnir á að klífa K2 sem gnæfir rúma 8.600 metra upp af landamærum Pakistan og Kína. John Snorri lést á leið niður af fjallinu í febrúar 2021 ásamt tveimur samferðamönnum sínum, feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali.

Í viðtalinu við norska vefritið greinir Kristin frá því að gjörningurinn yrði ekki án áhættu. Hætta væri á að klifrarar neðar í fjallinu gætu orðið fyrir líkinu þegar það losnaði úr tauginni og færi niður fjallshlíðina.

Lína hafnar þessari staðhæfingu og segir fjölskylduna hafa tekið þá ákvörðun frá byrjun að leggja ekki líf annarra í hættu.

„Það var Mingma G sem kom sjálfur til okkar og vildi sjá hvort hann gæti fært John á betri stað. Allar aðrar sögur eru uppspuni!“ segir Lína Móey jafnframt í færslu sinni.