Hin 45 ára Nicola Bull­ey hvarf spor­laust í Lan­cas­hire á föstu­daginn. Hún sást síðast í göngu­túr með hundinum sínum korter yfir níu að morgni til ná­lægt ánni Wyre í bænum Garstang í Englandi.

Mikil leit hefur staðið yfir í fimm daga síðan en lög­reglan fann far­síma hennar á bekk ná­lægt göngu­leiðinni um helgina. Síminn var enn tengdur vinnu­sím­tali, sam­kvæmt frétt BBC.

Lög­reglan fann einnig hundinn hennar ná­lægt símanum og var hann í „miklu upp­námi“ að sögn lög­reglu.

For­eldrar Nico­le, Ernest og Dot, segja í sam­tali við The Mirror það sé afar ó­líkt henni að láta ekki heyra í sér til lengri tíma. Þau segja hana hafa verið í góðu and­legu jafn­vægi þegar þau töluðu við hana síðast. Þau halda enn í vonina og segja að ef hún finnst ekki munu þau aldrei hætta að leita.

Sími Nicola fannst á þessum bekk og hefur lögreglan verið að kemba ánna.
Fréttablaðið/Getty

„Hún kvaddi okkur við hurðina og ég kyssti hana bless“

„Hugur hennar var á góðum stað, við sóttum börnin hennar á fimmtu­daginn líkt og við gerum alla fimmtu­daga,“ segir Ernest en Nicola á tvö ungar stelpur.

„Við fórum með þau heim og þar var Nicola á síma­fundi við yfir­mann sinn í Garstang,“ bætir hann við.

Að sögn Ernest var Nico­le í góðu skapi þar sem henni tókst ný­verið að breyta lána­skil­málum á hús­láninu sínu. „Hún kvaddi okkur við hurðina og ég kyssti hana bless. Ég sagði henni ég elskaði hana og þar var síðasta sam­talið okkar.“

Nicola ásamt sambýlismanni sínum Paul Ansell.
Fréttablaðið/Instagram

Lög­reglan í Lan­cas­hire segir málið skráð sem manns­hvarf en heldur opnum hug. Enn sem komið er bendir ekkert til þess að ráðist hafi verið á hana en Ernest segist sann­færður um að hún hafi annað hvort dottið ofan í ánna eða ein­hver hafi rænt henni.

Ernest segir fjölskylduna óttast að þau muni aldrei sjá hana aftur. „Eina sem ég get sagt er að við verðum að finna hana. Hún á tvær ungar dætur sem þurfa að fá mömmu sína heim. Við verðum að fara fá ein­hverjar góðar fréttir bráðum,“ segir Ernest að lokum.