Viðar Daði Einarsson greindist með illkynja krabbamein fyrir einungis tveimur vikum síðan sem nú hefur dreift sér víða um líkama hans. Um er að ræða sjaldgæft form af krabbameini en æxli hafa fundist á fimm stöðum í líkama hans, þar á meðal í lungum, andliti, heila og fleiri kirtlum í líkamanum.

Hann mun þurfa að gangast undir meðferð í Þýskalandi sem ekki á sér hliðstæðu hér á landi en til þess mun hann þurfa að greiða hátt í fjórar miljónir ásamt ferðakostnaði og öðru tilheyrandi. Greiða þarf meðferðina fyrir fram en óvist er hvort Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaðinum.

Meðferðin sem Viðar Daði þarfnast getur ekki beðið samþykktar frá ríkinu þar sem bregðast verður við strax til að meðferðin geti borið árangur.

Var búinn að vera veikur lengi án útskýringa

Bróðir Viðars, Guðni Jósep Einarsson, dvelur nú hjá honum í Slóvakíu. Hann segir Viðar hafa verið veikan lengi áður en hann greindist. En læknum tókst ekki að finna nákvæmlega hvað það var sem amaði að.

„Hann var búinn að vera finna fyrir veikindum lengi, hann hafði fengið Covid og miklar sýkingar og var búinn að vera að fara af og til til lækna á Íslandi. En þeir fundu bara sýkingar og skrifuðu upp á pensilín og þvílíkt en hann var aldrei að jafna sig,“ segir Guðni sem dvelur nú hjá bróður sínum í Slóvakíu „Þetta gengur síðan í svolítinn tíma og hann er þarna búinn að vera meira og minna lasinn í einhverja mánuði.“

Mynd/aðsend

„Kærasta Viðars, Eva Gunnlaugsdóttir, er í læknanámi í Martin í Slóvakíu. Þannig er hann í raun með heimili á tveimur stöðum. Síðan þegar hann kemur út til kærustu sinnar er hann er enn ekkert að jafna sig. Þrátt fyrir að vera búinn á pensilín kúr og búin að jafna sig á COVID en hann verður aldrei betri.“ Segir Guðni og bætir við:

„En hann fer síðan til læknis hér í Martin í Slóvakíu og þá er farið í gera miklu nákvæmari prófanir á honum og þá greinist hann með fimm sentimetra æxli í lunganu, með æxli í kyrtli í andliti og þrjú lítil æxli í heila.“

Viðar Daði ásamt kærustu sinni Evu Gunnlaugsdóttir
Mynd/aðsend

Meðferðin á sér ekki hliðstæðu á Íslandi

Læknar í Slóvakíu mæltu með því að Viðar Daði færi í meðferð undir eins og bentu þeir á gammageislatæki sem staðsett er í Þýskalandi. Þetta tæki er ekki til á Íslandi svo ómögulegt reyndist að finna meðferð fyrir Viðar hér á landi.

„Það eru ekki til mörg svona tæki í heiminum. Meðal annars ekki á Íslandi svo þeir mæltu með því að hann færi til Þýskalands,“ segir Guðni en til stendur að Viðar Daði hefji meðferð þar í landi innan skamms. Þar sem Viðar Daði er ekki ríkisborgari þar í landi þarf hann að greiða meðferðina fyrirfram og kostar hún 2 milljónir. Við taki svo ítarleg efnameðferð sem kostar það sama.

„Þetta er allt saman mjög erfitt eins og gefur að skilja. Fjórar milljónir bara í meðferðirnar og sennilega milljón í annan kostnað. Það eru bara tvær vikur síðan hann greindist og þetta er ekki nema rétt rúm vika síðan komið er í ljós hvað meðferðin kostar og hversu mikið liggur á,“ segir Guðni en Viðar Daði sem starfar sem sjálfstæður verktaki hafði ekki haft tekjur vegna veikinda sinna í lengri tíma.

Mynd/aðsend

Þurfa að klára greiðslur á morgun

„Við þurfum að klára greiðslur á morgun og stór partur af því sem notað hefur verið til að greiða er lán eða einhver 700 þúsund,“ segir Guðni og bætir við „Ástandið var þannig að til þess að hann ætti séns þá varð hann að fara í meðferð strax.“

Enn er óvíst hvort Sjúkratryggingar Íslands muni taka þátt í greiðslu á meðferðinni þar sem umsóknarferli um slíkt getur tekið langan tíma.

Þeir sem vilja styrkja meðferð Viðars Daða er bent á styrktarsíðu hans.

Einnig er hægt að leggja inn á reikning sem skráður er á nafn Evu Gunnlaugsdóttur, kærustu Viðars Daða.

Reikningsnúmer: 0123 26 020277

Kennitala: 040292 2689