Albanska fjöl­skyldan sem vísað var úr landi í gær er komin til Albaníu. Þetta kemur fram á Face­book síðu sam­takanna No Bor­ders Iceland í færslu sem birtist í nótt og má sjá neðst í fréttinni.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá er um að ræða hjón og tveggja ára gamlan son þeirra. Konan er komin tæpar 36 vikur á leið og lýsti yfir­læknir á Land­spítalanum því til dæmis yfir í kvöld­fréttum RÚV í gær­kvöldi að hún liti það al­var­legum augum að konan hefði verið send í flug þrátt fyrir læknis­vott­orð sem kvað á um annað.

Í til­kynningu frá Út­lendinga­stofnun sem birtist í gær vegna málsins kom fram að stofnunin teldi ekki að um­rætt vott­orð sýndi fram á að öryggi konunnar væri stefnt í hættu með brott­vísun. Fjölskyldunni var flogið til Berlínar. Þaðan var henni flogið til Vínar í Austurríki og að lokum til Albaníu.

Starfandi for­stjóri stofnunarinnar, Þor­steinn Gunnars­son, sagði í Kast­ljósi í gær­kvöldi að Út­lendinga­stofnun standi með hælis­leit­endum. Öllum settum reglum hefði verið fylgt en stofnunin liti málið samt sem áður al­var­legum augum.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, sagði á sam­fé­lags­miðlum í gær­kvöldi að sér væri brugðið vegna málsins. Til­efni væri til að meta hvort þörf sé á því að breyta reglum eða verk­lagi í við­komandi málum.

„Land­læknir hefur engu að síður boðað að skoða skuli verk­lagið og Út­lendinga­stofnun mun fara yfir gildandi reglur með þeim. Ég fagna því. Það þarf að meta hvort í ljósi þessa máls sé þörf á að breyta reglum eða verk­lagi. Brýnt er að leið­beiningar frá heil­brigðis­yfir­völdum séu skýrar.“